Nýja Star Wars myndin, Star Wars: The Force Awakens, sem frumsýnd verður 17. þessa mánaðar, verður lengri en fyrsta myndin í seríunni – en styttri en Attack of the Clones.
Samkvæmt frétt The Hollywood Reporter er myndin, sem mikil leynd hvílir annars yfir, 136 mínútur að lengd í sinni endanlegu gerð, sem er einni mínútu lengur en upprunlega var gert ráð fyrir.
Þetta þýðir að myndin er nákvæmlega í miðjunni ef horft er á lengd allra Star Wars myndanna til þessa. Fyrsta myndin frá 1977 var 121 mínúta ( 125 í sérútgáfu ), The Empire Strikes Back var 124 mínútur ( 127 í sérútgáfu ). Return of the Jedi frá 1983 var 134 mínútur ( 135 í sérútgáfu ).
The Phantom Menace frá 1999 var 136 mínútur, Attack of the Clones frá árinu 2002 var 142 mínútur og Revenge og the Sith frá 2005 var 140 mínútur.
Upplýsingar eins og þessar berast nú í litlum skömmtum um nýju myndina, en nýlega fengum við til dæmis að vita að myndin fengi PG-13 stimpilinn í Bandaríkjunum, en aldursmörk á Íslandi eru ekki enn ljós.