Nú eru aðeins nokkrar vikur þar til nýja hliðar- stjörnustríðsmyndin Rogue One: A Star Wars Story kemur í bíó, og eitt ár þar til næsta Stjörnustríðsmynd kemur, Star Wars Episode VIII.
Fátt er enn vitað um þessa mynd Rian Johnson, framhald á The Force Awakens frá árinu 2015, annað en að hún mun byrja á nákvæmlega sama stað og Force Awakens endaði – þar sem Rey, sem Daisy Ridley leikur, stendur á fjallstoppi með hettu- og hempuklæddum Luke Skywalker, sem Mark Hamill leikur.
Sögur segja að fyrsta stiklan muni birtast snemma á næsta ári, og nú herma heimildir að búið sé að birta fyrstu setninguna sem Luke, eða Logi Geimgengill, segir í myndinni, og hún er alveg jafn margræð og maður hefði mátt búast við.
Þeir sem ekki vilja vita meira, skulu því hætta lestri þegar í stað.
Og hver er setningin? Jú hún er þessi: „Þú berð með þér neistann, sem mun kveikja aftur eldinn“, eða á frummálinu:
“You contain the spark that will rekindle the fire.”
Þó er best að kokgleypa ekki þessar upplýsingar – enn er ekki einu sinni búið að tilkynna hvað myndin á að heita – en vefritið International Business Times segir þó að fjórum mismunandi heimildarmönnum beri saman um að þetta sé fyrsta setning Loga í nýju myndinni.
Í myndinni mæta aftur til leiks þau John Boyega, Oscar Isaac, Adam Driver og Gwendoline Christie auk nýrra andlita eins og Laura Dern og Benicio del Toro.
Rogue One, sem er fyrsta af þremur hliðarmyndum sem allar eru forsögur Star Wars myndanna, verður frumsýnd 16. desember nk.