Marvel teiknimyndahöfundurinn Stan Lee, sem þekktur er fyrir gestahlutverk sín ( cameo ) í Marvel ofurhetjumyndum, hlutverk eins og barþjónn í Ant-Man, Xandarian glaumgosi í Guardians of the Galaxy, plötusnúður á nektardansstað í Deadpool, FedEx póstmaður í Captain America: Civil War, og svo mætti lengi telja, er þegar búinn að taka upp gestahlutverk fyrir fjórar nýjar væntanlegar ofurhetjumyndir! Cinemablend segir frá þessu.
Það er því engan bilbug að finna á Lee, sem er orðinn 93 ára gamall.
Smelltu hér til að sjá öll feluhlutverk Stan Lee
Í spurningatíma í tengslum við sýningu á Captain America: Civil War, þá sagði forstjóri Marvel Studios, Kevin Feige, frá því að Lee væri rétt nýbúinn að taka upp gestahlutverkin fjögur, en upptökurnar fóru allar fram á einum og sama deginum í Atlanta í Georgíufylki í Bandaríkjunum.
„Þetta eru engar tilviljanakenndar tökur,“ sagði Feige, þegar hann svaraði manni úr sal sem spurði hvort að gestahlutverkin væru úthugsuð fyrir hverja mynd. „Þetta er alltaf fyrirfram ákveðið … fyrir tveimur mánuðum síðan þá vorum við í Atlanta og Lee kom þangað og við tókum upp fjögur hlutverk á sama deginum – fyrir mismunandi myndir. Þau eru öll frábær! Og öll mjög ólík. Og hann var ótrúlegur. Alveg funheitur. Hann kom, settist þarna, stóð þarna, stóð í glugganum, og fór svo heim.“
Ekki kemur fram fyrir hvaða myndir hlutverkin voru en mjög líklega er þarna um að ræða hlutverk í væntanlegu myndunum Doctor Strange, Guardians of the Galaxy Vol. 2, Thor: Ragnarok og Spider-Man: Homecoming.
Næsta Marvel mynd sem kemur í bíó er Doctor Strange, sem frumsýnd verður 28. október nk.