Næsta mynd hasarkempunnar Sylvester Stallone er ekki The Expendables 2, sem lesendur síðunnar sem aðrir virðast ekki halda vatni yfir. Heldur er það hasarmyndin Bullet to the Head, sem á að koma út í apríl næstkomandi. Umtalsvert minna hefur heyrst af þeirri mynd, en fyrsta stillimyndin af Stallone á tökustað var að detta á netið. Sýnir hún kappan í hörðum axar-bardaga við öllu yngri hasarhetju, Jason Momoa (nýji Conan the Barbarian), sem mun leika skúrk myndarinnar.
Leikstjóri er Walter Hill, sem átti sína gullöld í leikstjórn hasarmynda á borð við 48 hrs. og er þetta hálfgerð endurkoma hans í leikstjórastólinn, en það síðasta markverða sem hann sendi frá sér var Undisputed með Wesley Snipes og Ving Rhames árið 2002. Stallone valdi hann persónulega eftir að lenda í „listrænum ágreiningi“ við fyrri leikstjóra myndarinnar, Wayne Kramer. Með önnur hlutverk fara Christian Slater, Jon Seda, Adewale Akinnuoye-Agbaje og Sung Kang (Han í Fast & Furious seríunni). Sá síðastnefndi leikur ungan lögreglumann frá New York sem fær leigumorðingjann Stallone með sér í lið við rannsókn mikilvægs máls sem leiðir þá til New Orleans. Tom Jane var upphaflega ráðinn í hlutverk lögreglumannsins, en var skipt út, þar sem að framleiðendur töldu vanta „meiri lit“ í aðalhlutverk myndarinnar.
Við höfum ekki mikið til að byggja á, en ef eitthvað er að marka þessa lýsingu gæti þetta orðið fínasta glæpamynd. En getur hún átt eitthvað í Expendables? Sjáum til í apríl. Hér er blessuð ljósmyndin: