Stærsti dreifingarsamningur Sundance hingað til

Á nýafstaðinni Sundance kvikmyndahátíð var gerður stærsti dreifingasamningur fyrir kvikmynd í sögu hátíðarinnar. Sú kvikmynd er The Birth of a Nation og fékk hún mjög góðar viðtökur þegar hún var sýnd þann 25. janúar síðastliðinn.

Myndin fjallar um Nat Turner sem stóð fyrir vopnaðri uppreisn á 19. öld til að reyna að frelsa svarta þræla í Virginíu-fylki í Bandaríkjunum.

the-birth-of-a-nation-2016-nate-parker-1b

Að myndinni lokinni stóðu áhorfendur upp úr sætum sínum og klöppuðu ákaft fyrir bæði myndinni og leikurunum sem voru á staðnum. Ekki leið á löngu þar til tal barst að mögulegum Óskarsverðlaunum á næsta ári, en einhverjir báru myndina saman við Schindler’s List en hún vann 7 af þeim 12 Óskurum sem hún var tilnefnd til á sínum tíma.

Þegar kom að því að veita verðlaun á hátíðinni síðasta laugardag, þá vann The Birth of a Nation aðal dómara- og áhorfendaverðlaunin fyrir leikna mynd, en einnig eru veitt verðlaun fyrir heimildarmyndir.

Um leið og sýningu lauk fóru dreifingarfyrirtækin að bjóða í dreifingarrétt myndarinnar og stóð uppboðið alla nóttina. Fox Searchlight bauð 17,5 milljónir dala í réttinn og er talið líklegt að sá samningur innihaldi dreifingu fyrir allan heiminn. Náðu þeir að gera samning við WME Global, umboðsaðila myndarinnar á hátíðinni, og höfðu Fox Searchlight betur en mörg önnur fyrirtæki sem vildu ólm fá réttinn. Eitt þeirra fyrirtækja sem talið er hafa boðið 20 milljónir dollara er netveitan Netflix.

Fox Searchlight var dreifingaraðili kvikmyndarinnar 12 Years a Slave í Norður-Ameríku, en hún vann til þrennra Óskarsverðlauna árið 2014, þar á meðal fyrir bestu mynd. Hún á það sameiginlegt með The Birth of a Nation að fjalla um þræla í Bandaríkjunum á 19. öld og baráttu þeirra fyrir frelsi úr ánauð. Það er kemur því ekki á óvart að þessi tvö fyrirtæki hafi náð saman.

Nate Parker (Nat Turner), leikstjóri myndarinnar, er einnig einn af framleiðendunum og aðalleikari en þetta er fyrsta kvikmyndin sem hann leikstýrir í fullri lengd. Sem einn af framleiðendum myndarinnar, fjárfesti hann líka í henni og fann aðra fjárfesta.

Aðrir leikarar í myndinni eru meðal annars Gabrielle Union, Aja Naomi King, Armie Hammer, Jackie Earle Haley og Penelope Ann Miller.

Ekki er enn vitað hvort The Birth of a Nation verði sýnd hér á landi.

The Birth of a Nation (1915)

Til er þögul, svart-hvít kvikmynd frá 1915 með sama nafni en hún er talsvert ólík þeirri nýju. Hún er yfirfull af kynþáttahatri og upphefur hugmyndir Ku-Klux-Klan. Var myndin gagnrýnd fyrir að sýna Ku-Klux-Klan í óþægilega góðu ljósi, en þó mest fyir að sýna svarta menn sem heimska og að þeir ógnuðu hvítum konum kynferðislega. Myndin gekk samt mjög vel á flestum stöðum sem hún var sýnd á, en á nokkrum stöðum var hún bönnuð og sums staðar urðu óeirðir.

Myndin er byggð á skáldsögunni og leikritinu The Clansman: A Historical Romance of The Ku Klux Klan eftir Thomas Dixon, jr. og var bókin líka mjög umdeild þegar hún kom út á árum áður.

Hinsvegar er myndin talin nokkuð merkileg fyrir þær sakir að við gerð hennar var ýmislegt nýtt gert sem fólk hafði ekki séð áður í bíói, eins og umfangsmikil stríðsatriði, spennandi eltingaleikir og breytti þetta gangi kvikmyndagerðar til frambúðar.

Ári seinna kom út framhald af myndinni kallað The Fall of a Nation, og er talið að þetta sé fyrsta framhaldsmyndin í kvikmyndasögunni, en er hún talin vera týnd og jafnvel ekki til lengur.