Ath! Þeir sem lesa hvaða mynd er tekin til umræðu í þessum fasta lið eru beðnir um að skoða afganginn á þessu innihaldi á eigin ábyrgð. Tilgangurinn með þessu er að benda á sorglega myndefnið sem aðstandendur bíómynda setja stundum framan á DVD/BLU-Ray hulstrin, ómeðvitaðir (eða hvað?) um það að á þeim ríkir gríðarlegur spoiler. Sem sagt, ef þú hefur ekki séð myndina sem er nefnd í fyrirsögninni ertu vinsamlegast beðin/n um að skipta (tímabundið) um síðu, því oft er verið að skemma fyrir góðum myndum.
MYND: PLANET OF THE APES (1968)
Sumir vilja meina það að ef mynd er eldri en 20-30 ára, þá þýðir ekkert að setja spoiler-viðvörun. Ég er ekki alveg sammála þessu, en óneitanlega er erfitt að komast hjá því að vita hver stærsti spoilerinn er ef um er að ræða fræga, klassíska mynd. Ég man allavega að þegar ég var lítill þá kynntist ég oft spoilerum í gegnum „spoof“ grín (hversu margir krakkar ætli hafi séð gert grín að Empire Strikes Back áður en þeir sáu sjálfa myndina?)
Hulstrið að þessu sinni er vissulega fyrir upprunalegu Planet of the Apes-myndina. Það er að vísu ekki hægt að neita því að nú þegar búið er að núllstilla seríuna (með Rise of the Planet of the Apes og væntanlegu framhaldi hennar) er svolítið úrelt að fela þá staðreynd að þetta hafi verið okkar pláneta allan tímann. DVD-hulstrið sem þið sjáið fór samt í prent löngu áður en Rupert Wyatt kom með sína mynd.
Þetta er auðvitað ein frægasta lokasena í heimi, en áherslan er engu að síður „LOKAsenan,“ og venjulega finnst mér ekki kúl að sýna stillu úr slíkum, hvað þá framan á umbúðunum.
Það er ykkar að dæma hvort þetta sé úrelt eða ekki. Látið í ykkur heyra.