Leikstjórinn Steven Spielberg er skrefi nær því að leikstýra stórmynd byggðri á lífi Móses. Myndin mun bera nafnið Gods and Kings og handritshöfundarnir Michael Green og Stuart Hazeldine sáu um það að koma hugmyndinni á blað. Af nógu er að taka, enda eru margar áhugaverðar sögur um Móses í gamla testamentinu, m.a. þegar hann leiddi för gyðinga úr Egyptalandi, brennandi runnann (e. The Burning Bush) og að sjálfsögðu boðorðin 10.
Spielberg hóf viðræður við framleiðendur fyrir nokkru og er höfuðverkurinn talinn sá, að Spielberg sé ekki laus eins og er til þess að leikstýra myndinni, en hann er afar upptekinn eins og gefur að skilja. Ljóst er að mikið púsluspil er framundan til þess að fá hann til þess að leikstýra þessu verki.
Spielberg stendur nú í tökum á kvikmyndinni Lincoln, þar sem Daniel Day-Lewis leikur fyrrverandi Bandaríkjaforsetann Abraham Lincoln. Eftir það ætlar Spielberg að tækla Robopocalypse, sem eins og nafnið gefur til kynna, fjallar um heimsendi þar sem vélmenni spila höfuðhlutverk (!). Ásamt þessu er hann á fullu í sjónvarpsþáttabransanum, en framleiðendurnir eru sagðir mjög áhugasamir um að fresta útkomu myndarinnar svo Spielberg geti leikstýrt. Ekki er komin útgáfudagsetning á myndina enn sem komið er.
Ljóst er að mikil epík er hér á ferð og þetta gæti verið The Ten Commandments okkar kynslóðar, en sú mynd fagnar 54 ára afmæli sínu í ár.