Tímaritið Empire birtir greinargott viðtal við meistarann sjálfan Steven Spielberg í nýjustu útgáfu sinni og hefur látið frá sér nokkrar vel valdar tilvitnanir á heimasíðu sinni, þar sem hann bæði gerir upp fortíðina og horfir fram á við. Þó að spjallið hafi að mestu snúist um War Horse – næstu mynd meistarans, þá gafst einnig tími til að spyrja út í Jurassic Park IV og Indiana Jones V. Karlinn var bjartsýnn um risaeðluseríuna. „Mark Protosevich er að skrifa handritið í þessum töluðu orðum. Ég vona að myndin komi út á næstu árum. Við höfum góða sögu – betri sögu en við höfðum í mynd nr. 3“
Um Indiana Jones 5: „Þú verður að spyrja George Lucas. Hann sér um að finna söguna fyrir myndina, hann hefur gert það á öllum fjórum myndum. Hvort sem mér hefur líkað þær eða ekki, hann finnur sögurnar. Hann er að vinna að Indy V. hann er ekki að skrifa handrit, en hann vinnur að sögunni. Ég læt George um það að finna upp á henni.“
Þegar hann er spurður um Kingdom of the Crystal Skull segir hann: „Ég er mjög ánægður með myndina, og hef alltaf verið. Ég skil að sumu leiti fólk sem líkaði ekki við „The MacGuffin“ (hlutinn sem keyrir plottið áfram – geimveruhauskúpur). Ég og George rifumst mikið um það. Ég vildi ekki að þessar verur yrðu geimverur eða verur úr annari vídd. En ég er tryggur besta vini mínum. Þegar hann skrifar sögu sem hann trúir á – jafnvel þó mér lítist ekki á hana – þá tek ég myndina upp eins og George sá hana fyrir sér. Ég bæti mínu eigin bragði við, ræð leikara, skýt hana eins og ég vil, en ég mun alltaf vísa á George sem þann sem segir söguna af Indiana Jones. Ég mun aldrei slást við hann um það.“ En sumt annað sem var gagnrýnt er hann bara ánægður með. „Góferinn* var góður. Ég á ennþá leikmuninn heima. Það sem fólk virtist líka kippa sér upp við var að Indy færi inn í ísskáp til að sleppa undan atómsprengingu. Kennið mér um það – ekki George. Það var mín kjánalega hugmynd. Fólk hætti að segja „jump the shark“ og fór að segja „nuked the fridge“. Ég er stoltur af því, ánægður að ég kom því inn í poppmenninguna.“
Annars held ég að flestir þeir sem voru svekktir með Indy IV muni fyrirgefa Spielberg þegar þeir sjá hina mun betur heppnuðu Ævintýri Tinna. Vonandi mun War Horse einnig standa fyrir sínu. En hvað segir fólk, er einhver áhugi á Jurassic Park IV – eða þá Indy V?
*Þýðing á enska orðinu Gopher? – þetta er ekki moldvarpa.. jarðíkorni? Eru einhverjir dýrafræðingar hér?