Nýjasta kvikmynd leikstjórans Steven Spielberg, Ready Player One, verður frumsýnd í mars á næsta ári. Glæný stikla úr myndinni var opinberuð í gær og einnig var gefið út plakat fyrir myndina um helgina. Það er hinn ungi og efnilegi Tye Sheridan sem fer með aðalhlutverkið, en hann hefur áður leikið í myndum á borð við X-Men: Apocalypse og Mud.
Ready Player One fjallar um strák sem er heltekinn af menningu níunda áratugar síðustu aldar, og fer í skransöfnunarleiðangur í gegnum OASIS, sem er sýndarveruleikaheimur árið 2045. OASIS var búið til af hinum snjalla og sérvitra James Halliday, en þegar hann fellur frá þá erfir hann veldi sitt til þess sem er fyrstur til að finna stafrænt falið páskaegg sem hann faldi í heiminum. Í kjölfarið hefst leitin í sýndarveruleikanum um að finna eggið og á meðan eru valdastólpar í hinum raunverulega heimi að reyna að stöðva þá leikmenn sem eru komnir hvað lengst í sýndarveruleikanum.
Spielberg hefur nóg fyrir stafni um þessar mundir því hann mun einnig frumsýna myndina The Post, með Tom Hanks og Meryl Streep í aðalhlutverkum, á næsta ári. Að auki er hann að fara að leikstýra mynd um ránið á Edgardo Mortara og svo má ekki gleyma fimmtu Indiana Jones-myndinni sem er væntanleg 2020.
Með önnur helstu hlutverk í Ready Player One fara Olivia Cooke, Ben Mendelsohn, Simon Pegg og Mark Rylance. Plakatið fyrir myndina má sjá hér að ofan til vinstri en stiklan er í spilaranum hér að neðan.