Spænskir kvikmyndadagar í Bíó Paradís

Dagana 13. – 16 nóvember  verða spænskir kvikmyndadagar haldnir hátíðlegir í Bíó Paradís. Spænska ferðamálaráðið og sendiráð Spánar í Osló bjóða landsmönnum á fjórar ólíkar kvikmyndir úr hjarta spænskrar kvikmyndalistar.

unnamed-1

Þar er meðal annars fjallað um gauragang ungra spænskra karlmanna, Mjallhvíti í gervi nautabana og matreiðslumeistara sem er heltekin af Michelinstjörnunni. Allar myndirnar verða sýndar með enskum texta og er aðgangur að hátíðinni ókeypis.

Söguþræðir myndanna má sjá hér að neðan. Dagskrá hátíðarinnar má nálgast HÉR.

Karlmennskan endurheimt 

Rómantíska gamanmyndin Primos (Cousinhood) segir frá þremur spænskum frændum í leit að karlmennskunni á æskuslóðum eftir að einn þeirra, Diego, er yfirgefinn við altarið í eigin brúðkaupi. Á slíkum stundum er gott að eiga góða að, kvennabósinn Julian og kveifin Miguel, eru þá líklega betri en engin. Þeir fá þá hugmynd að fara á æskuslóðirnar til þess að endurvekja góðar minningar og endurheimta glataða karlmennsku. Og ekki síst til þess að hitta Martinu, æskuástina hans Diego. Myndin er með enskum texta.

Nautabaninn Mjallhvít

Líklega hafa fáir séð Mjallhvíti eins og leikstjórinn Pablo Berger sýnir hana í mynd sinni um þetta ódauðlega ævintýri. Pablo segir myndina óð til þögulla kvikmynda en sögusviðið er Spánn árið 1920. Myndin segir frá Mjallhvíti sem lærir að verða nautabani hjá föður sínum, sem er frægur sem slíkur á Spáni. Á meðan brugga ill stjúpmóðir Mjallhvítar henni launráð. Einn daginn strýkur Mjallhvít að heiman og rekst þá á sjö dverga sem allir eru nautabanar. Minnislaus heldur hún áfram að iðka list nautabanans svo úr verður eftirminnilegt ævintýri.

Myndin hefur fengið góða dóma og kom til greina sem framlag Spánar til Óskarsverðlauna. Myndin hefur hlotið fjölmörg verðlaun enda um frekar einstaka upplifun að ræða. Sjálfur segir leikstjórinn að myndin sé nokkurskonar ástarbréf til þögullar kvikmyndagerðar í Evrópu á fyrrihluta síðustu aldar. Myndin er með enskum texta.

Átján réttir

Á hverjum degi eru yfir hálf milljón máltíða eldaðar í litlu spænsku borginni Santiago de Compostela. Við fylgjumst með örlögum átján einstaklinga sem fá sér að borða sama daginn. Myndin 18 comidas (18 meals) fléttar saman sögum persóna í gegnum borðhald þeirra yfir daginn. Margar þessar máltíðir láta ekki mikið yfir sér, en sumar máltíðir krydda lífið með slíkum hætti að ekki er hægt að snúa aftur. Myndin átján réttir er hugljúft ferðalag í gegnum líflega matarmenningu Spánar og ekki síst fólks sem aldrei veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Myndin er með enskum texta.

Kokkurinn mælir með

Fuera de Carta (Chef´s special) fjallar um samkynhneigðan matreiðslumeistara.. Hann er heltekinn af velgengni veitingastaðarins sem hann rekur og gerir allt sem hann getur til þess að öðlast hina frægu og eftirstóttu michelinstjörnu. Hann neyðist hinsvegar til þess að endurmeta gildi sín þegar börnin hans úr fyrra hjónabandi koma óvænt í heimsókn til hans. Og til þess að flækja málin ögn meira, þá flytur fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta frá Argentínu við hliðina á honum. Myndin er rómantísk gamanmynd sem hefur verið hrósað fyrir frábærlega vel skrifuð samtöl og sterka kómíska nálgun á líf matreiðslumeistarans. Myndin er með enskum texta.