Kvikmyndir og stuttmyndir gerðar af aðdáendum til heiðurs vinsælum kvikmyndum, eða persónum í kvikmyndum, eru vinsælt kvikmyndagerðarform, þó útkoman geti verið æði misjöfn, og jafnvel vandræðaleg, í versta falli.
Í nýrri X-Men aðdáendamynd frá K&K Productions; Cable: Chronicles of Hope, er hinsvegar mikil fagmennska á ferðinni og enginn byrjendabragur á tæknibrellunum. Það sem gerir myndina einkar áhugaverða fyrir Íslendinga er að með annað aðalhlutverkið í myndinni, sem er um sex mínútna löng, fer enginn annar en einkaþjálfarinn, leikarinn og ljóðskáldið Sölvi Fannar Viðarsson. Hann fer í myndinni með hlutverk ofurhetjunnar Cable, sem er verndari annarrar ofurhetju, Hope, sem er, eins og fram kemur í myndinni, einskonar Messías.
Þau lenda í miklum hremmingum og ráðist er á þau úr öllum áttum, en sjón er sögu ríkari: