Gerard Butler situr ekki auðum höndum frekar en fyrri daginn. Hann hefur nú skrifað undir samning um að leika í Afterburn, í leikstjórn Jung Byung-gil.
Samkvæmt Deadline kvikmyndavefnum þá hefur þessi mynd verið lengi í fæðingu og Butler hefur sjálfur verið lengi að reyna að ýta henni í gang. Um er að ræða kvikmyndagerð á teiknimyndasögu eftir Paul Ens, Scott Chitwood og Wayne Nichols. Þetta er framtíðartryllir, sem gerist fimm árum eftir að gríðarlegt sólgos truflar alla tækni í Evrópu og veldur því að fjöldinn allur af fólki stökkbreytist. Butler leikur ævintýramann sem fer til Frakklands til að reyna að bjarga málverkinu Monu Lisu, og endar með því að vinna með vopnasérfræðingi sem er með ákveðnar hugmyndir og áætlanir.
Hugmyndin er, samkvæmt Empire, að gera nokkrar kvikmyndir, í ætt við National Treasure myndirnar, þar sem Butler leitar að nýjum og nýjum list – eða fornmunum í hverri mynd.
Tökur eiga að hefjast í sumar.
Berja má Butler augum í Den of Thieves um þessar mundir, en hann er fljótlega að fara að leika í framhaldi þeirrar myndar, sem og þriðju Olympus has Fallen kvikmyndinni; Angel Has Fallen.