Variety segir frá því að leikstjórinn Steven Soderbergh hafi ákveðið að hætta við að hætta að gera kvikmyndir, en þrjú ár eru síðan leikstjórinn lét af þeirri iðju.
Myndin sem fékk leikstjórann til að skipta um skoðun heitir Lucky Logan, og er ránsmynd með Channing Tatum í aðalhlutverki.
Soderbergh sló í gegn með fyrstu mynd sinni Sex, Lies, and Videotape árið 1989, og vann Gullpálmann á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi. Í kjölfarið leikstýrði hann ýmsum myndum, eins og Out of Sight og Ocean’s Eleven áður en hann gerði lokamynd sína Side Effects árið 2013.
Síðan þá hefur hann einkum unnið fyrir sjónvarp. Hann leikstýrði til dæmis Michael Douglas í hinni ævisögulegu mynd um glamúrpíanóleikarann Liberace, Behind the Candelabra, og hefur síðan þá framleitt og leikstýrt sjónvarpsþáttum eins og The Knick, Red Oaks og sjónvarpsútgáfu af eigin mynd, The Girlfriend Experience.
Soderbergh hefur unnið með Tatum oft áður, þar á meðal í myndinni Magic Mike og í spennutryllinum Haywire. Soderbergh vann Óskarsverðlaunin árið 2001 fyrir myndina Traffic.
Ekki er vitað hvenær tökur á Lucky Logan hefjast.