Will Smith hefur þurft að hlusta á ýmsar háðsglósur síðan að fyrstu myndir tóku að berast af honum í hlutverki bláa andans í leiknu Aladdin myndinni frá Disney, sem kemur í bíó 22. maí nk., en honum er slétt sama.
Í teiknimyndinni frá árinu 1992 var það Robin Williams heitinn, sem talaði fyrir andann, og hlaut mikið lof fyrir, þannig að skórnir sem Smith þurfti að fylla voru ansi stórir, og því ekki skrýtið að menn hefðu misjafnar skoðanir á útkomunni.
En Will Smith hefur nú opinberað að hann hafi verið hæstánægður með útlit andans, og segir að í raun hafi honum fundist sexí að leika persónuna.
„Mér leið sexí í hlutverki andans,“ sagði hann við Entartainment Tonight, þegar sérstök forsýning var haldin í Lundúnum.
Leikarinn talaði einnig um ástæðuna fyrir því að hann ákvað að taka þessari stóru áskorun, að leika andann.
„Það eru svo margar frábærar hugmyndir í myndinni sem ég er mjög hrifinn af, og hugmyndin um andann, sem hefur það eina hlutverk í lífinu að hjálpa fólki að finna sjálft sig og gera það besta úr lífi sínu, er næstum hreinasta formið af ást,“ bætti hann við.
„Þannig að fyrir mig að leika andann, þá ertu alltaf að leita að einhverju sem þú nærð að tengja við sem er sérstakt og öðruvísi, og þetta hlutverk hans og tilgangur, er það sem ég tengi við mitt líf.“