Við höfum sagt fréttir hér á síðunni af frumraun Matrix leikarans Keanu Reeves sem leikstjóra, Man of Tai Chi, en myndin var frumsýnd nú um helgina í Bandaríkjunum.
Því miður þá hefur myndinni ekki gengið nógu vel samkvæmt Exhibitor Relations vefsíðunni. Myndin er að þéna áætlaðar 50 þúsund Bandaríkjadali yfir alla helgina samkvæmt vefnum. Myndin er sýnd á 110 bíótjöldum sem þýðir að tekjur á hvert bíótjald yfir helgina nema að meðaltali einungis 455 dölum, eða um 55 þúsund íslenskum krónum.
Þetta eru vonbrigði fyrir aðdáendur Reeves, en fall er fararheill og vonandi gengur myndinni betur í framhaldinu, en myndin hefur verið að fá ágæta gagnrýni.
Það er þó huggun harmi gegn að myndin hefur þénað 1,5 milljónir dala af sýningum á VOD og á kapalsjónvarpsstöðum síðan hún var fyrst boðin þar til áhorfs þann 27. september sl.