„Rúsínan í pylsuenda kvikmyndaveislunnar í júlí er nýjasta Mission Impossible-myndin sem sögð er slá öllum fyrri myndunum við í hasar, húmor og ótrúlegum áhættuatriðum sem fá áhorfendur til að standa á öndinni af einskærri spennu,“ segir í tilkynningu frá SAM bíóunum, vegna frumsýningar Mission Impossible: Rogue Nation á morgun, með Tom Cruise í aðalhlutverkinu sem fyrr.
Mission Impossible – Rogue Nation er fimmta myndin í kvikmyndaseríunni sem byggð er á vinsælum, samnefndum sjónvarpsþáttum frá sjöunda áratug síðustu aldar. Í þetta sinn takast þeir Ethan Hunt og samherjar hans við glæpasamtökin „The Syndicate“, en þau hafa á að skipa álíka snjöllu og óttalausu sérsveitarfólki og IMF-sveitin sem Ethan tilheyrir – fólki sem er staðráðið í að eyða IMF fyrir fullt og allt.
Um leið verða Ethan og félagar að komast að því hver það er sem njósnar fyrir glæpasamtökin innan IMF og fóðrar þau á háleynilegum upplýsingum …
Aðalhlutverk: Tom Cruise, Jeremy Renner, Simon Pegg, Rebecca Ferguson, Alec Baldwin og Ving Rhames
Leikstjórn: Christopher McQuarrie
Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll, Keflavík og Akureyri, Smárabíó, Laugarásbíó, Selfossbíó‚ Ísafjarðarbíó, Bíóhöllin
Akranesi og Króksbíó Sauðárkróki
Aldurstakmark: 12 ára
Fróðleiksmolar til gamans:
– Tom Cruise reynir eftir fremsta magni að framkvæma áhættuatriðin í myndinni sjálfur og hermt er að í atriðinu þegar hann hangir utan á flugvélinni hafi hann í raun hangið utan á henni upp í rúmlega kílómetra hæð. Enn fremur er sagt að í atriðinu sem gerist í vatnstankinum hafi Tom haldið niðri í sér andanum í sex mínútur og að það atriði sé ekki klippt til. Maður trúir þessu varla, svona að óséðu, en þetta er að því er við best vitum rétt. Þess má geta að sagt er að Tom hafi slasað sig sex sinnum við tökur myndarinnar.
– Og fyrst við erum að tala um áhættuatriði þá verður að geta þess að Simon Pegg framkvæmdi líka sjálfur bílaáhættuatriðið með Tom Cruise, en hluta af öllum þessum þremur atriðum, þ.e. flugatriðið, atriðið í vatnstankinum og bílaatriðið má sjá í stiklunni sem er á bak við QR-merkið hér fyrir ofan.
– Mission Impossible – Rogue Nation gerist í beinu framhaldi af atburðunum í Mission Impossible – Ghost Protocol, en í lok hennar minntist Ethan Hunt einmitt á að næsta verkefni væri að uppræta „The Syndicate“-glæpasamtökin. Þeir sem hafa kynnt sér eða muna eftir sjónvarpsþáttunum sem Mission Impossible-myndirnar eru byggðar á vita að hinir þrautþjálfuðu meðlimir „The Syndicate“ voru helstu andstæðingar IMF-sveitarinnar þar.