Skemmtilegasta stórmynd ársins – Denzel frábær

Nýja Ridley Scott myndin Gladiator ll byrjar á svipaðan hátt og sú fyrsta: Það er allt að fara til andskotans. En í þetta skiptið á hetja myndarinnar, Lucius, sem Paul Mescal leikur, óskilgetinn sonur Maximusar sem Russell Crowe lék í fyrri myndinni, ekki sök á látunum.
Þetta kemur fram í fjögurra stjörnu dómi (af fimm mögulegum) í The Daily Telegraph.

Lucius er í byrjun myndarinnar ósköp venjulegur bóndi sem sinnir daglegum störfum sínum á akrinum, en hefur þó verið kvaddur í númídíska herinn sem kallaður hefur verið saman til að verjast þeim rómverska undir stjórn hershöfðingjans Marcus Acacius, sem Pedro Pascal leikur.

Sólin bakar menn

Miðjarðarhafssólin bakar menn á báðum vígstöðvum og fljótlega sjáum við örvahríð og steinvörpur að verki og menn mæta grimmilegum örlögum. Eins og gagnrýnandinn segir þá er Ridley Scott með þessari kröftugu byrjun að tryggja að hann nái athygli okkar áhorfenda – sem geta ekki slitið augun af tjaldinu næstu tvo og hálfan tímann.

Gladiator II (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.6
Rotten tomatoes einkunn 71%

Mörgum árum eftir að hafa orðið vitni að dauða hetjunnar Maximusar neyðist sonur hans Lucius til að fara inn í hringleikahúsið og berjast þegar fulltrúar keisarans, sem stjórnar Rómarborg með harðri hendi, leggja heimili hans í rúst. Með ofsareiði í hjarta og framtíð ...

Gagnrýnandinn segir að þessi mynd, sem er gerð tuttugu árum eftir hina Óskarsverðlaunuðu fyrstu mynd, nái ekki að verða eins góð og forverinn, en segir strax á eftir að Gladiator ll sé skemmtilegasta stórmynd ársins hingað til: Mikilfengleg rómversk saga sem skautar á milli ruddalegs gríns, æsispennandi atriða og nötrandi melódrama, með persónum sem koma inn og út úr skuggunum.

Hlaðborð sem springur

Ef upprunalega myndin var eins og sex rétta máltíð, þá er þessi eins og sprengihlaðborð og Scott veit nákvæmlega hvað hann er að gera, segir gagnrýnandinn.

Lucius vill hefna sín á Rómverjum, borginni sem drap föður hans, sendi hann í útlegð barnungan, myrti vini hans og eiginkonu osfrv. Þó að Lucius sé kannski ekki eins spennandi persóna og faðir hans, þá er alltaf gaman að horfa á hann, þrekinn, dökkan yfirlitum, íhugulan og djúpvitran, þannig að hann minnir á ungan Richard Harris eða Oliver Reed, ensku stórleikarana.

Og líkaminn er magnaðari en skrokkur Crowe: Axlirnar einar eru eins og nýbökuð súrdeigsbrauð, segir gagnrýnandinn.

Í leit sinn að hefnd þá er Macrinus, sem Denzel Washington leikur, hans aðal hjálparhella. Snareygður plottari sem fer með hann inn í hringleikahúsið sitt þar sem skylmingaþrælarnir berjast, eftir að Lucius er tekinn til fanga í stríðinu.

Hrein unun á að horfa

Frammistaða Washington er, samkvæmt gagnrýnandanum, hrein unun á að horfa, og hann er eiginlega svo góður að hann skyggir á meðleikara sína, þó að leikarar eins og Tim Mcinerny og Alexander Karim, séu skemmtilegir í aukahlutverkum.

Gagnrýnandinn klikkir út með að segja að markmið Scott sé hér að skemmta áhorfandanum, bæði með því að segja frá skuggalegu samsæri sem getur komið Rómarborg á kné og bregða upp æsispennandi atriðum í hringleikahúsinu þar sem nashyrningar koma m.a. við sögu.