Stuttmyndin Hvalfjörður, eftir Guðmund Arnar Guðmundsson, hlaut Golden Spike verðlaunin á Giffoni, einni stærstu barna og unglinga kvikmyndahátíð í heimi nú í lok mánaðarins.
„Ástæða þess að Hvalfjörður varð fyrir valinu var að sögn dómnefndar: „Fyrir að hafa skapað áhrifaríka sögu sem gerist í íslenskri sveit og fær áhorfandann til að hugleiða hið viðkvæma samband sem iðulega er til staðar á milli systkina, ásamt því hvernig mikilvægi lífsins er sett í forgrunn,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum myndarinnar.
Á myndinni sést leikstjóri og handritshöfundur Hvalfjarðar, Guðmundur Arnar Guðmundsson, taka við Golden Spike verðlaununum á Giffoni hátíðinni í Ítalíu.
Í tilkynningunni kemur fram að kvikmyndahátíðin hafi farið fram í 43. skiptið dagana 19. – 28. júlí í smábænum Campania á Ítalíu. 200.000 manns sóttu hátíðina á þessum 10 dögum sem hún stóð yfir. Hvalfjörður keppti í +18 Generator flokknum og hlaut þar sérstök verðlaun að nafni Golden Spike Award frá Social World kvikmyndahátíðinni sem veitir verðlaun fyrir bestu stuttmyndina með félagslegt þema. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk mynd hlýtur verðlaun á Giffoni kvikmyndahátíðinni, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Hvalfjörður hefur nú unnið til verðlauna í báðum þeim keppnishátíðum sem hún hefur tekið þátt í en síðast hlaut hún sérstök dómnefndarverðlaun í aðalkeppni stuttmynda í Cannes.
Næst á dagskrá er kvikmyndahátíðin í Melbourne, sem er ein sú elsta í heiminum, en hún hófst 25. júlí og stendur til 11. ágúst. Hvalfjörður verður sýnd þar þann 4. ágúst ásamt 11 öðrum alþjóðlegum stuttmyndum.
Framundan hjá Hvalfirði er þátttaka á fjölda annarra kvikmyndahátíða, þar á meðal Odense, Montreal World Film Festival, Dokufest og Helsinki.
Með aðalhlutverk myndarinnar fara þeir Ágúst Örn B. Wigum og Einar Jóhann Valsson. Anton Máni Svansson er aðalframleiðandi myndarinnar ásamt Guðmundi en yfirframleiðendur hennar eru þeir Kjartan Þór Þórðarson, Kristinn Þórðarson og Magnús Viðar Sigurðsson hjá Sagafilm. Rúnar Rúnarsson er svo meðframleiðandi myndarinnar ásamt Dönunum Darin Mailand-Mercado og Jacob Oliver Krarup.
Nánari upplýsingar um Hvalfjörð má nálgast á www.whalevalley.com og www.facebook.com/whalevalley