Sjón með nýja túlkun á Hamlet

Sænska leikkonan Noomi Rapace hefur verið ráðin í titilhlutverk glænýrrar túlkunar á Hamlet og er handritið eftir rithöfundinn Sigurjón Birgi Sigurðsson, eða Sjón.

Kynjahlutverkum verður snúið við í þessari aðlögun og hefur dansk-íranski kvikmyndagerðarmaðurinn Ali Abbasi leikstjórn með höndum. Myndin verður samstarfsverkefni fyrirtækjanna Meta Film og Boom Films og er áætlað að tökur hefjist um haustið 2021.

Rapace lýsti ánægju sinni með verkefnið í yfirlýsingu og sagði Hamlet vera sannkallað draumaverkefni.

„Það er algjör draumur að tækla danska sögu með skandinavísku yfirbragði og þessum hópi,“ mælir leikkonan. „Í mínum augum eru Ali, Sjón og Meta listamenn á heimsmælikvarða; gífurlega hugrakkir og brautryðjandi hver á sinn hátt.“

Eins og mörgum er kunnugt var fyrsta kvikmynd Noomi Í skugga hrafnsins eftir Hrafn Gunnlaugsson, en þá var hún aðeins sjö ára gömul. Ákvað hún þá að hún vildi verða leikkona. Hún varð síðar heimsfræg fyrir hlutverk sitt sem Lisbeth Salander í Millennium kvikmyndaþríleiknum sem er byggður á metsölubókum Stieg Larsson.

Rapace fer einnig með aðalhlutverkið í Dýrinu (e. Lamb), kvikmynd Valdimars Jóhannssonar, og skrifuðu þeir Sjón saman handritið að þeirri mynd. Má geta þess einnig að Sjón er annar handritshöfundur kvikmyndarinnar The Northman ásamt Robert Eggers. Myndin er væntanleg á næsta ári og fara þau Nicole Kidman, Anya Taylor-Joy, Willem Dafoe og Alexander Skarsgård með hlutverk ásamt Björk okkar Guðmundsdóttur.

The Northman gerist á Íslandi við upphaf 10. aldar og segir í grunninn frá norskum prinsi sem hyggst koma morðingja föður síns fyrir kattarnef. Myndin er framleidd af Lars Knudsen, dönskum framleiðanda, sem hefur látið gott af sér leiða með þekktum hryllingsmyndum á borð við Hereditary og Midsommar.