Sjö til bjargar – fyrsta stikla úr Magnificent Seven

Fyrsta stiklan úr nýjustu mynd Training Day leikstjórans Antoine Fuqua, endurgerð vestrans The Magnificent Seven, kom út í dag.

seven

Með helstu hlutverk fara Denzel Washington, Chris Pratt, Ethan Hawke, Vincent D’Onofrio, Byung-Hun Lee, Manuel Garcia-Rulfo og Martin Sensmeier, sem hinir sjö sem ráðnir eru af örvæntingarfullum bæjarbúum í Rose Creek til að drepa miskunnarlausan morðingja sem Peter Sarsgaard leikur. Áður en varir eru þeir farnir að berjast fyrir fleiru en peningunum einum.

„Ég krefst réttlætis, en ég sætti mig við hefnd,“ segir persóna Haley Bennett við Sam Chisolm, sem leikinn er af Denzel Washington, eftir að eiginmaður hennar er myrtur. „Við erum heiðvirt fólk, rekið af heimilum okkar og slátrað með köldu blóði,“ segir hún einnig við Chisolm, sem býður ekki boðanna heldur safnar saman hópi byssumanna.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Myndin er endurgerð frægs vestra frá árinu 1960 með Yul Brynner og Steve McQueen í aðalhlutverkum, en sú mynd var byggð á mynd japanska leikstjórans Akira Kurosawa frá árinu 1954 , Seven Samurai.

Myndin vakti athygli á CinemaCon ráðstefnunni á dögunum, og Fuqua sagði þá að myndin hefði heillað sig „af því að hún er um endurlausn og réttlæti …. sem allir tengja við.“

„Endurgerðin er „í raun um sjö menn sem gera nákvæmlega það sem þeir segjast ætla að gera,“ sagði Pratt við sama tilefni.

Myndin kemur í bíó 23. september nk.