Sjáðu 10 mínútur úr John Carter

John Carter kemur út næsta föstudag, og markaðsdeildin hjá Disney reyna nú að beita öllum mögulegum brögðum til þess að auka áhugann á myndinni, en hefur ekki þótt vera að standa sig alveg nógu vel.

Til að auka pressuna á þá er sagt að myndin sé svo dýr að hún muni þurfa að taka inn yfir 700 milljónir Bandaríkjadala til þess að teljast skila hagnaði, sem er gífurlega há fjárhæð og aðeins á færi allra vinsælustu mynda.

Til þess að reyna að trekkja upp áhugann, hefur nú verið sett á netið 10 mínútna langt atriði úr byrjun myndarinnar. Það hefst á að ungur Edgar Rice Burroughs opnar bréf frá löngu týndum frænda sínum, John Carter, sem segir síðan frá ævintýrum hans á tímum ameríska Borgarastríðsins. Sjáið klippuna hér:

Það fyrsta sem ég verð að koma að er hve gaman er að sjá Bryan Cranston skjóta upp kollinum í hverri gæðamyndinni á fætur annari núna undanfarið eftir að hafa stritað sem sjónvarpsleikari í mörg ár. Var líka að fatta að gæjinn sem leikur Burroughs er Daryl Sabara, strákurinn úr Spy Kids myndunum. Tíminn líður hratt.

Klippan leit annars nokkuð vel út, ég er allavega vongóður að myndin verði fínasta skemmtun og muni gera vel við þessa næstum 100 ára gömlu sögu eftir höfund Tarzan. Hvort að hagnaðarmarkmið Disney nái fram að ganga (og þar af leiðandi hvort við fáum einhverjar framhaldsmyndir) verður svo að koma í ljós. Sjáum til á föstudaginn.