Sirkussýra og misfyndnir brandarar

Það er lítið hægt að segja um Madagascar 3 sem hefur ekki verið sagt um hinar tvær myndirnar. Ef þú ert aðdáandi þeirra beggja er þessi alls ekki að fara að valda þér vonbrigðum. En ef þú ert eins og ég og fannst fyrsta myndin fyndin, óvenju súr og nokkuð skemmtileg en önnur myndin ekkert sérstök, þá ætti þér að þykja þessi passa einhvers staðar þarna mitt á milli. Þetta eru töluverðar framfarir en ekkert sem snertir t.d. sígilda Pixar standardinn. Nema kannski Cars 2.

Þú færð meira eða minna sama díl út úr þessu og áður, eða a.m.k. það sama og fyrsta myndin gaf þér: ótrúlega ruglaða, litríka og líflega teiknimynd sem hugsar rökrétt um hvernig á að ná best til barna sem eiga erfitt með að halda athygli nema nóg sé um að vera. Allt gerist yfirleitt mjög hratt, hreyfingar persóna eru spastískar og ýktar (akkúrat eins og þær eiga að vera í svona skrípói – það þarf ekki allt að vera löðrandi í photo real smáatriðum) og kjánahúmorinn er bæði barnalegur og algjör sýra á bestu stöðum til að kæta foreldra og unglinga. Ég get ímyndað mér langsóttari hluti en að margir eldri áhorfendur muni neita að horfa á þessa(r) mynd(ir) án þess að hafa andað einhverju sterku að sér fyrirfram. Ég verð sjálfur mjög hissa ef ég sé aðra teiknimynd á þessu ári sem býður upp á betra litatripp heldur en það sem boðið er upp á í Madagascar 3 í einni eða tveimur sirkussenum. Þær eru býsna geggjaðar.

Síðan er yfirleitt búið til pláss fyrir persónusköpun til að hleypa smá hlýju inn í fjörið. Hvort sem það tekst eða ekki er eiginlega undir áhorfendum komið að dæma. Mér hefur oftast verið frekar sama um þessar persónur þó hægt sé auðveldlega að hafa gaman af þeim. Aukapersónurnar hafa samt alltaf verið í meira uppáhaldi hjá mér, en líklegast er það vegna þess að þær eru notaðar töluvert meira sparlega heldur en þessar fjórar helstu. Í þessari mynd eru nýju persónurnar ekki upp á marga fiska (fyrir utan tígrisdýrið með mest dásamlega absúrd hæfileika sem sögur bera af í Dreamworks-myndum). Ítalski selurinn sem Martin Short talsetti fór einstaklega í taugarnar á mér, þó ég verði að viðurkenna að hann hafi átt eina eða tvær frábærar línur („My tears are real, you’re NOT!“).

Aðalvandamálið við Madagascar 3 er í rauninni þetta sama og í nr. 2. Þessi svokölluðu hjartnæmu augnablik ná aldrei almennilega að yfirstíga klisjurnar sem eru notaðar til að komast í áttina að þeim, eða fylla upp í húmorslausu þagnirnar þegar brandararnir falla flatir. Kostirnir við myndina eru þó margir svipaðir og fylgdu fyrstu myndinni. Myndin fer fljótt af stað og valhoppar á milli fjölbreyttra uppákoma þangað til að sagan ákveður að taka sér fáeinar hvíldarpásur. Eltingarleikurinn í Monte Carlo (sem étur upp góðan part af fyrstu 20 mínútum myndarinnar) var t.a.m. alveg meiriháttar. Reyndar er þessi ekki almennt alveg jafnfyndin og sú fyrsta, en nokkur atriði (sama hversu langt getur verið á milli þeirra) eru óneitanlega pínu brilliant. Grafíkin er líka tvöfalt flottari en síðast og ábyggilega tuttugu sinnum flottari en þar síðast. Teiknimyndir frá Dreamworks hafa aldeilis verið duglegar að ofnota löng skot með flóknum og sturluðum „kameruhreyfingum,“ en oftast eru þau svo flott að maður dettur inn í hvaða litabrjálæði sem um er að vera.

Semsagt vel gerð að utan en misjafnlega góð að innan. Auðgleymd en samt pínu skemmtileg. Fyndin en þó ekki alveg nógu fyndin til að teljast fullnægjandi. Framvegis vil ég fá fleiri stuttmyndir með mörgæsunum.


(6/10)

PS. Mér finnst endalaust athyglisvert að sjá þessar abstrakt hugmyndir sem Dreamworks teiknimyndastúdíóið hefur um paranir dýra. Í Shrek-myndunum sá maður afrakstur þess ef tröllvaxinn dreki myndi fjölga sér með ræfilslegum asna. Í fyrri Madagascar-myndinni kviknaði rómantík á milli gíraffa og flóðhests. Núna er það sirkusbjörn og lemúr.