Hinn þekkti breski sjónvarpsmaður, Sir David Frost, er látinn. Talið er að hann hafi fengið hjartaáfall um borð í skemmtiferðaskipinu Queen Elizabeth á laugardagskvöld.
„Fjölskylda hans er í áfalli og hefur hún beðið um að fá að vera í ró og næði á þessari erfiðu stundu,“ sagði í yfirlýsingu frá talsmanni Frost-fjölskyldunnar.
Frost hóf feril sinn á sjöunda áratugnum sem blaðamaður og sjónvarpsmaður. Eitt þekktasta viðtal hans var við Richard Nixon, fyrrum forseta Bandaríkjanna.
Myndin Frost/Nixon frá árinu 2008 var byggð á viðtalinu og var það Michael Sheen sem lék Frost, sem var 74 ára þegar hann féll frá.