Við sögðum frá því fyrr í vikunni að Bryan Singer, leikstjóri X-Men, hefði verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn dreng, sem var á þeim tíma þegar brotið átti sér stað undir lögaldri, aðeins 17 ára gamall, á Hawaii.
Verjandi Singer segir nú samkvæmt frétt The Wrap, að leikstjórinn hafi ekki verið staddur á Hawaii, þegar brotið á að hafa átt sér stað árið 1999.
Verjandinn segir að hann hafi kreditkortakvittanir, símreikninga og aðra pappíra sem sanni það.
Verjandinn Marty Singer sagði við AP fréttastofuna að skjólstæðingur sinn hafi verið á fullu að vinna að X-Men í Toronto í Kanada frá því í ágúst til október það ár.
„Þetta var fyrsta stóra stúdíómynd Bryan,“ sagði verjandinn við fréttastofuna. „Það er alveg á hreinu að hann hefði ekki farið að taka sér frí mitt í tökunum til að fara til Hawaii.“
Í ákærunni segir Michael Egan að Singer hafi neytt sig ítrekað til kynferðislegra athafna, fyrst í sundlaugarpartýi í Encino í Kaliforníu, og síðar í Hawaii.
Í fyrstu ferðinni af mörgum til Hawaii, þá á Singer að hafa „sett handfylli af kókaíni upp að nefi Egan og neytt hann til að sjúga það upp í nefið“ og „látið honum í té bjór sem hann drakk sem hafði mikil áhrif á meðvitund hans og hreyfigetu“ áður en hann nauðgaði honum tvisvar.
Verjandi Singer vísar kærunni út í hafsauga.
Egan segir að hann hafi ekki verið eini drengurinn undir lögaldri sem var misnotaður, og lögfræðingur hans sagði á blaðamannafundi í Beverly Hills á fimmtudaginn að hann hefði nokkra aðra skjólstæðinga sem geti einnig sagt frá misnotkun.
„Nokkur önnur fórnarlömb hafa haft samband og sagt að þeir hafi verið mistnotaðir af öðrum aðilum úr kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood, en það eru mál sem eru óskyld máli Mike,“ sagði Herman.