Silent Night, Deadly Night er slasher sem kemur manni í meira jólastuð en Home Alone maraþon. Þessi mynd var gerð fyrir 750.000 dollara og er virkilega elskuð af þeim sem eru djúpt ofan í hryllingsmyndunum.
Billy (Robert Brian Wilson) sá foreldra sína myrta af manni í jólasveinabúning þegar hann var 8 ára gamall. Eftir tíu ára dvöl á heimili fyrir munaðarlausa lætur hann allt flakka, klæðir sig í jólasveinabúning og leyfir líkunum að hrannast upp!
Frumlegur og áhugaverður söguþráður gerir myndina algjörlega. Billy fær starf sem vöðvabúnt í leikfangabúð í bænum sem hann býr í, hittir sæta stelpu og á meðan jólin nálgast, minnir hver dagurinn á fætur öðrum hann meira og meira á það sem gerðist þegar hann var 8 ára gamall. Þegar það á að koma maður klæddur í jólasveinabúning í leikfangabúðina þar sem Billy starfar en kemst ekki, er Billy fenginn til að fylla í skarðið og allt breytist til hins verra þegar hann klæðist jólasveinabúningnum. Þetta var fyrsta kvikmyndin sem Robert Brian Wilson lék í og þrátt fyrir það er leikurinn frábær. Linnea Quigley (Creepozoids, A Nightmare on Elm Street 4, The Return of the Living Dead) leikur í þetta skiptið karakter að nafni Denise og gerir það vel. Upptakan er skemmtileg, stöðug skot í flottum atriðum og tæknibrellurnar ásamt tónlistinni er sömuleiðis frábær.
Það eru til fimm Silent Night, Deadly Night myndir og er það persónulegt hjá hverjum hvaða mynd er best og hvort sérían verði verri með hverri mynd eða ekki. Fyrsta myndin á þó sinn sess í hrollvekjugeiranum og er einn þekktasti slasher hjá þeim sem eru komnir dýpra en aðrir.