Stelpumyndin Sex and the City 2 hélt toppsætinu nokkuð örugglega um nýliðna helgi á Íslandi, þrátt fyrir misjafna dóma bæði hérlendis og annars staðar. Carrie og vinkonurnar ná því greinilega að höfða til aðdáendahópsins, þó ekki sé aðsóknin jafn rosaleg og margir bjuggust við. Er hún þó komin yfir 20.000 áhorfendur, sem verður að teljast helvíti fínt.
Alls fóru um 3.200 áhorfendur á myndina um helgina, um tvöfalt meira en Get Him to the Greek, sem einnig var á sinni annarri sýningarhelgi. Voru þær vinsælli en báðar nýju myndirnar sem frumsýndar voru um helgina, dansmyndin StreetDance 3D og hasarmyndin The Losers (sem Tommi gaf fimmu í gagnrýni sinni um helgina). Í krafti hærra miðasöluverðs (þrívídd sko) náði StreetDance þriðja sætinu, þrátt fyrir að vera með aðeins færri áhorfendur en The Losers. Prince of Persia var svo rétt fyrir neðan þær í fimmta sætinu og nálgast 20.000 áhorfenda markið. Ætti hún að ná því eftir tvær vikur í seinasta lagi. Teiknimyndin Húgó 3 var sjötta, Robin Hood var sjöunda (og hún kemst yfir 20.000 áhorfendur í dag eða á morgun) og á eftir henni komu Snabba Cash, How to Train Your Dragon (sem er öldungurinn, búin að vera 11 vikur á lista) og The Last Song.
Um næstu helgi mun svo Toy Story 3 rústa allri samkeppni. Það bara getur ekki annað verið.