Mad Men-leikarinn Jon Hamm og Gone Girl-leikkonan Rosamund Pike fara með aðalhlutverkin í kvikmyndinni Beirut. Myndin var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni sem lauk nýverið. Beirut fer svo í almennar sýningar vestanhafs þann 11. apríl næstkomandi.
Myndin fjallar um samningamanninn Mason Skiles (Hamm) sem flýr til Lebanon eftir að konan hans er myrt. Tíu árum síðar er hann kallaður aftur í vinnu í Beirút á vegum CIA. Hryðjuverkamenn hafa tekið fyrrum samstarfsmann og vin hans sem gísl og vilja fá þekktan glæpamann í skipti fyrir líf hans.
Brad Anderson leikstýrir myndinni en hann er hvað þekktastur fyrir myndir á borð við The Machinist og Session 9. Handritshöfundurinn Tony Gilroy, sem skrifaði Bourne-myndirnar, samdi handritið að myndinni.
Ný stikla úr myndinni var opinberuð fyrir skömmu. Þar má sjá Hamm í hlutverki sínu og byrjar stiklan á sprengingu þar sem hann er að halda fyrirlestur í mestu makindum. Eftir það fáum við að sjá fortíð hans og hvernig hann er dreginn inn í þær aðstæður sem hann er þarf að glíma við.
Með önnur veigamikil hlutverk í myndinni fara m.a. Dean Norris, Shea Wigham, Larry Pine og Mark Pellegrino.
Stikluna má sjá í spilaranum hér að neðan.