Kvikmyndagerðarmaðurinn Steven Soderbergh er bjartsýnn á framtíð kvikmyndahúsa og telur ólíklegt að streymisveitur taki alfarið við dreifingu kvikmynda.
Bíóiðnaðurinn hefur tekið miklum stakkaskiptum vegna Covid-19, lokunum kvikmyndahúsa og frestunum á stórmyndum. Með aukinni notkun Netflix og tilkomu nýrra streymisveitna á borð við Disney+ og HBO Max, er víða deilt um hvort kvikmyndahúsaiðnaðurinn eigi jafnvel á hættu á að hverfa. Þessar umræður fóru aftur á fullt þegar kvikmyndaverið Warner Bros. tilkynnti á dögunum að það hygðist gefa helstu stórmyndir sínar út samtímis á HBO Max og í kvikmyndahúsum. Myndirnar fara þó í hefðbundna bíófrumsýningu eingöngu, í löndum þar sem HBO Max er ekki í boði.
Í viðtali við bandaríska fréttamiðilinn The Daily Beast var Soderbergh spurður hvort breytt dagskrá Warner Bros. gæti leitt til útrýmingar kvikmyndahúsa. Þessu svaraði leikstjórinn beinskeyttur:
„Nei, alls ekki. Þetta eru viðbrögð við núverandi ástandi efnahagsins sem ég tel að fleiri eigi eftir að átta sig á á næstunni.“
Segir Soderbergh að þó það taki sinn tíma fyrir kvikmyndahúsin að ná fullu skriði að ný, sé óraunsætt að búast við að allt verði komið í eðlilegt stand á næsta ári. „Höfum eitt á hreinu; það er ekkert húllumhæ í skemmtanabransanum sem jafnast á við bíómynd sem halar inn yfir milljarði dollara eða meiru í kvikmyndahúsum. Það er hið heilaga gral. Því er ólíklegt að bíóiðnaðurinn hverfi,“ segir Soderbergh.
„Þetta snýr allt saman aftur, en Warner (Bros.) virðist vera að segja við okkur að það verði ekki á jafn snemma og maður heldur.“