Hin ótrúlega heimildarmynd Searching for Sugar Man, sem sýnd er þessa dagana í Bíó Paradís, var í gær valin besta heimildarmyndin á verðlaunahátíð International Documentary Association, IDA.
Myndin er eftir Malik Bendjelloul.
Myndin er einnig á „stuttlista“ fyrir Óskarsverðlaunin næstu, þ.e. myndin er á meðal þeirra 15 heimildarmynda sem koma til greina til að verða tilnefndar til Óskarsverðlauna sem besta heimildarmynd.
Myndin fjallar um Sixto Rodriguez sem var efnilegur tónlistarmaður frá Detroit sem tókst að heilla tvo plötuútgefendur upp úr skónum árið 1968. Þeir töldu sig hafa fundið nýjan Bob Dylan og gáfu út plötu hans, Cold Fact. Platan seldist hins vegar hörmulega og Rodriguez hvarf af sjónarsviðinu. Á meðan sögur gengu um versnandi geðheilsu Rodriguez, og um dramatískt sjálfsmorð, varð hann að óvæntri stórstjörnu hinum megin við Atlantshafið… í Suður-Afríku.
Searching for Sugar Man hefur farið sigurför um heiminn og unnið til fjölda verðlauna, meðal annars áhorfendaverðlaunin á hinni virtu Sundance-kvikmyndahátíð. Leikstjórinn, Malik Bendjelloul, ferðaðist til Suður-Afríku árið 2005 og heyrði sögur af Sixto Rodriguez. Þótti honum þetta vera ein besta saga sem hann hafði heyrt, og ákvað í kjölfarið að gera kvikmynd um leit sína að Rodriguez
Sjáið stikluna fyrir Searching for Sugar Man hér að neðan: