Aðalleikari kvikmyndarinnar We Are Your Friends, Zac Efron, segir að myndin sé Saturday Night Fever sinnar kynslóðar.
Í samtali við Variety kvikmyndaritið sagði Efron að hann hefði lengi verið hrifinn af danstónlist ( Electronic Dance Music ), en hún hefur notið sívaxandi vinsælda síðustu ár, með listamönnum eins og David Guetta og Skrillex, sem báðir hafa sótt Ísland heim nýlega.
„Það er frábært að við getum blandað danstónlist inn í mynd með alþjóðlega skírskotun. Þetta er eins og diskóið var í Saturday Night Fever. Sú mynd er í raun um mann sem er að breyta til, vaxa úr grasi og verða fullorðinn, og í bakgrunni er diskótónlistin, þannig að þetta er útgáfa okkar kynslóðar en með rafrænni danstónlist.“
Myndin er uppvaxatarsaga og fjallar um 23 ára gamlan efnilegan plötusnúð og vini hans frá San Fernando Valley.
Aðrir helstu leikarar eru Emily Ratajkowski, Shiloh Fernandez, Jonny Weston og Alex Shaffer.
Myndin kemur í bíó í Bandaríkjunum 28. ágúst nk. en á Íslandi þann 11. september.