Allnokkrar sviptingar hafa verið í kringum kvikmyndagerð teiknimyndasögunnar Sandman síðustu daga. Síðastliðinn föstudag sögðum við frá því að nýr handritshöfundur væri kominn að verkefninu, Eric Heissere, og í gær bárust þá fréttir að leikarinn og leikstjórinn Joseph Gordon-Levitt væri hættur við verkefnið.
Meðhöfundur Sandman sögunnar, Neil Gaiman, sagði á Twitter að þrátt fyrir þetta bæri hann enn jafnmikla virðingu fyrir Gordon-Levitt. „Ég myndi elska að vinna meira með [Joe]. Hann er klár, heiðarlegur og mjög vinalegur. Og rétt til að minna á, þá á ég ekki Sandman. DC Comics eiga söguna. Ég vel ekki hver skrifar handrit, leikstýrir, framleiðir eða ræður í hlutverk. Ég gerði þennan samning þegar ég var 26 ára, fyrir löngu síðan, og ég taldi það vel þess virði … þetta er einstök persóna, sköpuð af mér, Mike Dringenberg og Smart Kieth, en við gerðum það í tímavinnu fyrir DC Comics.“
Joseph Gordon-Levitt kom að verkefninu sem leikstjóri og aðalleikari í desember 2013. Óvíst er á þessari stundu hver tekur við af Gordon-Levitt.
New Line framleiðslufyrirtækið hefur áhuga á að gera þríleik upp úr sögunum, en það fer auðvitað allt eftir því hve margir koma í bíó á fyrstu myndina.
Enn er óvíst með frumsýningardag.
I very much hope so. I would love to work with @hitRECordJoe some more. He’s smart, honest & really nice. https://t.co/lbFrNLAycJ
— Neil Gaiman (@neilhimself) March 6, 2016