Sálir samtengdar í Pacific Rim

Það styttist óðum í frumsýningu á einni af stórmyndum sumarsins, Pacific Rim, en myndin verður frumsýnd hér á landi 19. júlí nk.

Pacific-Rim-Robot-Pilots

Í Pacific Rim berjast risastór vélmenni, svokölluð Jaeger, sem stjórnað er af tveimur manneskjum sem staðsettar eru inni í vélmennunum, við ógnarstór skrímsli utan úr geimnum sem rísa úr hafdjúpunum.

Í þessari stuttmynd úr herbúðum Pacific Rim útskýrir leikstjórinn Guillermo del Toro og leikarar myndarinnar fyrir áhorfendum hver hugmyndin er á bakvið það hvernig vélmennunum er stjórnað, en í stuttu máli þá eru heilar stjórnendanna og sálir samtengdar á meðan þeir eru inni í vélmenninu.

Sjáið myndina hér fyrir neðan:

Söguþráður myndarinnar er eftirfarandi: Þegar flokkar risastórra skrímsla, sem ganga undir nafninu Kaiju, byrja að rísa upp úr sjónum, þá hefst stríð sem gæti kostað milljónir mannslífa og auðlindir jarðarinnar um alla framtíð. Til að berjast gegn Kaiju, þá eru búin til sérstök vopn; tröllaukin vélmenni, sem kallast Jaegers, sem er stjórnað samtímis af tveimur mönnum, en heilar þeirra eru tengdir saman með sérstakri taugabrú. En Jaegers vélmennin eru harla máttlaus gagnvart hinum hrikalegu Kaiju, og nú er svo komið að heimurinn er á heljarþröm, og uppgjöf virðist vera óumflýjanleg. Síðasta von mannkyns er að leita til tveggja fremur óvenjulegra hetja, fyrrum flugmanns og óreynds manns í þjálfun, en saman stýra þeir goðsagnakenndum en eldgömlum Jaeger. Nú eru þeir þeir einu sem geta bjargað mannkyni frá yfirvofandi heimsendi.