Saga Júragarðsins skoðuð í þaula

Kvikmyndahlaðvarpið Vídeóleigan hóf göngu sína í fyrrasumar en í þáttunum ræða æskuvinirnir Atli Steinn Bjarnason og Atli Þór Einarsson sígilda eða splunkunýja kvikmynd og skoða hana frá öllum mögulegum vinklum. Þættirnir hafa farið ört vaxandi að vinsældum og þiggja félagarnir uppástungur frá hlustendum annað slagið.

Nýverið gáfu Atlarnir út veglegan og veigamikinn þátt, þann fimmtánda í röðinni, og þar er áherslan lögð á Júragarðinn eins og hann leggur sig, eftir Steven Spielberg.

Í þættinum, sem er á þriðja klukkutíma á lengd, er ferill eins frægasta kvikmyndagerðarmanns samtímans rakinn og ræddur í þaula. Flestir ættu að þekkja Spielberg og frægustu titla hans en þó eru eflaust einhverjir sem ekki þekkja upphafsárin, tækifærin, dugnaðinn og heimagerðu stutt- og kvikmyndaverkefni hans sem leiddu til hluta sem fáir á hans aldri höfðu áður kynnst. 

Tvö afrek á einu ári

Frá unga aldri var ljóst að Spielberg hafði ástríðu fyrir allmörgu sem seinna rataði á hvíta tjaldið undir hans nafni á einhverjum tímapunkti. Áhugi hans á einu tilteknu sviði varð á endanum að einni vinsælustu kvikmyndaseríu heims. Hér er að sjálfsögðu verið að tala um áhuga mannsins á risaeðlum.

Lífið fann að sjálfsögðu leið og skömmu eftir frumsýningu var orðið ljóst að Jurassic Park ætti seint eftir að hverfa úr kosmósinu.

Þá fara Atlarnir ítarlega yfir framleiðsluferil stórmyndarinnar en þar er nóg af sturluðum staðreyndum og æsilega krydduðum sögum. Margt gerðist á bakvið tjöldin, breytingar, hindranir og umfram allt byltingar á sviði tæknibrellna. Spielberg er ekki einhamur, sem sést svo á því að hann frumsýndi hina mögnuðu Schindler’s List á sama ári og Júragarðurinn var frumsýndur.

Geri aðrir betur…

Öruggt er að fullyrða að aðdáendur kvikmyndarinnar (sem og áhugafólk um ferlið á bak við gerð hennar) mega ekki láta þennan þátt fram hjá sér fara. Hann er aðgengilegur hér að neðan í gegnum Spotify hlekk.

Ef þú vilt kynna þér stærra safn Vídeóleigunnar er hægt að nálgast úrvalið bæði hér og á helstu hlaðvarpsveitum.

Stikk: