Sá græni sterkur áfram á toppnum

Græni viðkunnalegi risinn Shrek er í stórgóðu formi í bandarískum bíóhúsum, og er þaulsetinn á toppi aðsóknarlistans þar í landi. Nú er búist við því að sá græni vermi toppsæti aðsóknarlistans þessa helgina í Bandaríkjunum, sem yrði þriðja topphelgin í röð.

Myndin heitir Shrek Forever After og er fjórða myndin í seríunni. Þessi mynd er einnig fyrsta Shrek myndin í þrívídd.

Tekjur af myndinni fyrstu sýningarhelgina voru undir væntingum þar vestra, en síðan þá hefur myndin fengið góða aðsókn og bitið af sér alla samkeppni við nýjar myndir.

Nú um helgina keppa myndir eins og Marmaduke, mynd um talandi hund sem Owen Wilson ljær rödd sína, og Get him to the Greek, við Shrek um hylli bíógesta. Þess má geta að byrjað er sýna Get him to the Greek hér á landi. Þá verður myndin Splice, með Adrien Brody og Sarah Polley, einnig frumsýnd ytra um helgina.

Spámenn vestra telja þó að enginn þessara mynda muni slá Shrek við í aðsókn.

Shrek myndin er kynnt sem lokakafli Shrek sögunnar, en á næsta ári er væntanlegt spin-off með stígvélaða kettinum, sem Antonio Banderas talar fyrir af mikillli snilld.

ÞB.

Stikk: