Breski poppsöngvarinn vinsæli, Ed Sheeran, 27 ára, er sagður vera um það bil að landa hlutverki í nýrri kvikmynd um hljómsveitina Bítlana, eftir handriti Richard Curtis.
Myndin á að heita All You Need Is Love, eftir samnefndu lagi Bítlanna, og fjallar um mann sem vaknar upp dag einn og kemst að því að hann er eini maðurinn í heiminum sem man Bítlalögin.
Sagt er í breska blaðinu Daily Mail að hann muni bæði leika í myndinni, og semja tónlist fyrir myndina, en eins og gefur að skilja, verða Bítlalög einnig áberandi í myndinni.
Heimildarmaður Daily Mail, sem þekkir vel til hjá framleiðslufyrirtækinu Working Title, sem vinnur að gerð myndarinnar, sagði: „Allt sem Ed snertir verður að gulli. Hann er stærsti smellahöfundur í heimi. Ef einhver getur gert mynd um Bítlalög enn betri tónlistarlega, þá er það hann.“
Sheeran er þekktur fyrir að vera heitur aðdáandi Bítlanna, og árið 2014 tók hann þátt í The Night That Changed America, þar sem haldið var upp á 50 ára afmæli þess þegar Bítlarnir tróðu upp í þætti Ed Sullivan í Bandaríkjunum árið 1964. Þar flutti Sheeran órafmagnaða útgáfu af In My Life, fyrir framan stjörnum prýddan áhorfendaskara, þar á meðal tvo eftirlifandi Bítlana, þá Paul McCartney og Ringo Starr.
Talið er að Downton Abbey leikkoan Lily James muni einnig leika í myndinni, sem byrjað verður að taka upp í London og Norfolk í sumar.
Curtis, sem er þekktur fyrir að skrifa handrit að myndum eins og Four Weddings And A Funeral, Notting Hill og Love Actually, er búinn að skrifa handritið. Danny Boyle leikstýrir, en hann á að baki myndir eins og Slumdog Millionaire og Trainspotting. Boyle er sagður hafa mikla ástríðu fyrir verkefninu og vilja klára það áður en hann hefst handa við að leikstýra næstu James Bond kvikmynd.
Sheeran hefur áður leikið gestahlutverk í Krúnuleikunum, Game Of Thrones, við misjafnar undirtektir.