Gamanmyndin Vacation verður frumsýnd á morgun, miðvikudaginn 12. ágúst.
Vacation-myndirnar um Griswold-fjölskylduna seinheppnu eru á meðal fyndnustu mynda kvikmyndasögunnar enda nutu þær, og njóta enn, mikilla vinsælda. Nú er Rusty, sonur þeirra Clarks og Ellenar, kominn með sína eigin fjölskyldu og ákveður að fara með hana í sama skemmtigarðinn og foreldrar hans fóru í með hann og systur hans, Audrey, í fyrstu myndinni.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Rusty Griswold hefur lengi dreymt um að fara með sína eigin fjölskyldu í fjölskyldu- og skemmtigarðinn Wally World eins og foreldrar hans gerðu þegar hann var sjálfur ungur. Og nú er loksins komið að því!
Óhætt er að fullyrða að ferðin á ekki eftir að ganga eins og í sögu og lenda þau Rusty, eiginkona hans, Debbie, og synirnir tveir, James og Kevin, í hverri neyðarlegu uppákomunni á fætur annarri á leið sinni í garðinn fyrirheitna, m.a. þegar þau heimsækja Audrey og eiginmann hennar, Stone Crandall…
Með hlutverk þeirra Rustys og Debbie fara þau Ed Helms (Hangover-myndirnar) og Christina Applegate (Anchorman-myndirnar), en systir Rustys, Audrey, er leikin af Leslie Mann og eiginmaðurinn, Stone Crandall, af Chris Hemsworth sem hér sýnir sannarlega á sér nýja hlið enda er Stone ekki alveg eins og fólk er flest.
Aðalhlutverk: Ed Helms, Christina Applegate, Chris Hemsworth, Leslie Mann og Skyler Gisondo
Leikstjórn: John Francis Daley og Jonathan M. Goldstein
Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni,
Akureyri og Keflavík, Laugarásbíó, Ísafjarðarbíó, Selfossbíó og Bíóhöllin Akranesi
Aldurstakmark: 12 ára
Fróðleiksmolar til gamans:
– Vacation er fyrsta myndin sem félagarnir Jonathan M. Goldstein og John Francis Daley leikstýra en þeir skrifuðu m.a. Horrible Bosses-myndirnar.
– Þau Chevy Chase og Beverly D’Angelo sem léku Griswold-hjónin Clark og Ellen í gömlu myndunum leika einnig í þessari og eru um leið þau einu sem hafa leikið í öllum bíómyndunum fimm, þ.e. Vacation, European Vacation, Christmas Vacation, Vegas Vacation og þessari. Það eru 32 ár liðin frá frumsýningu fyrstu myndarinnar og 18 ár frá frumsýningu þeirrar síðustu.
– Opinber heimasíða myndarinnar er á vacationthemovie.com og er bæði skemmtileg og upplýsandi. Þar er nú t.d. í gangi ljósmyndasamkeppni þar sem fólki býðst að senda inn fyndnar myndir úr ferðalögum sínum og mun höfundur fyndnustu myndarinnar hljóta fimm þúsund dollara ferðavinning. Það er samt sennilega orðið um seinan að taka þátt því sigurvegarinn var útnefndur 29. Júlí.. En það má skoða bæði vinningsmyndina og þær sem lentu í næstu sætum þar á eftir.
– Atriðin í skemmtigarðinum Walley World í Vacation eru tekin upp í Six Flags-skemmtigarðinum í Atlanta í Georgiu-ríki Bandaríkjanna.