Þetta kemur eflaust einhverjum á óvart, þar sem að íslandsvinurinn Eli Roth er mikill aðdáandi blóðsúthellinga, en hann staðfesti það nýlega á NME verðlaununum að hann vilji gjarnan gera hryllingsmynd á næstunni sem að ætti meira erindi til unglinga.
Roth segist einnig vera alveg „blæddur út“ hvað yfirdrifinn hrottaskap varðar í ofbeldi sínu, og hann telur upp m.a. Cloverfield sem einn kandídatinn sem að sannfærði hann um að hægt væri að hræða áhorfendur án þess að mjólka viðbjóð.
Síðasta mynd Roths var – eins og flestir ættu að muna – Hostel: Part II, sem að stóðst væntingar í miðasölu vestanhafs en fékk talsvert neikvæðar viðtökur meðal gagnrýnenda.
Einnig er vert að taka það fram svona til gamans að undirritaður fréttamaður útnefndi þá mynd eina verstu mynd ársins 2007.
Ekki er endanlega staðfest hvaða verkefni Roth mun taka að sér næst, en talið er að hann muni næst kvikmynda aðlögun á bókinni Cell (ath. þetta er ótengt myndinni THE Cell), eftir Stephen King.

