Robert Forster, leikari sem lék í fjölda vel þekktra bíómynda og sjónvarpsþátta á lífsleiðinni, og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í Quentin Tarantino kvikmyndinni Jackie Brown, er látinn, 78 ára að aldri.
Forster fæddist í Rochester í New York, og hóf leiklistarnám í háskólanum í Rochester, þar sem hann var í laganámi, en breytti svo um kúrs og einbeitti sér að leiklistinni.
Hann þreytti frumraun sína á leiksviði á Broadway, áður en hann lék svo í fyrsta sinn í kvikmynd, fyrir John Huston í Reflections In A Golden Eye. Í kjölfarið fylgdu hlutverk í hundruðum kvikmynda og fjölda sjónvarpssería.
Tjáningarríkt og veðurbarið andlit hans var auðþekkjanlegt, og hann átti auðvelt með að leika, ólík hlutverk, hvort sem er í gamanmyndum eða drama.
Quentin Tarantino bjó til hlutverk Max Cherry í Jackie Brown með Forster í huga, og eins og var raunin með marga leikara, þá hjálpaði hlutverkið í Tarantino kvikmyndinni leikaranum að stækka aðdáendahóp sinn til muna, og blása nýju lífi í ferilinn.
Í kjölfarið fylgdu hlutverk í sjónvarpsþáttaröðum eins og hinni rómuðu Breaking Bad, þar sem hann lék Ed Galbraith. Þeir sem vilja sjá hann á þeim vettvangi á ný geta barið hann augum í El Camino, nýju Breaking Bad kvikmyndinni á Netflix.
„Þú verður að hafa skap. Taka vel á móti öllu, og slá aldrei af gæðakröfum, og gera þitt besta,“ sagði Forster eitt sinn. „Og aldrei að hætta. Ekkert er búið fyrr en það er búið.“