Samkvæmt kvikmyndavefnum Deadline þá ætlar framleiðslufyrirtæki Suicide Squad leikkonunnar Margot Robbie, LuckyChap Entertainment, í félagi við New Line Cinema kvikmyndafyrirtækið, að gera kvikmynd eftir verðlaunastuttmyndinni Fool´s Day, eftir Code Blue Snider. Robbie hyggst framleiða myndina og leika aukahlutverk.
Snider mun leikstýra verkinu sem fjallar um krakka í fjórða bekk í grunnskóla, sem ákveða að stríða kennaranum, sem Robbie mun leika, á 1. apríl, en hrekkurinn verður henni að aldurtila.
Krakkarnir eru sannfærðir um að þau lendi öll í fangelsi ef upp um þetta kemst, og því reyna þau að fela líkið áður en lögreglumaður mætir í skólann til að halda fyrirlestur um skaðsemi eiturlyfja.
Annað á stuttum tíma
Fool´s Day er annað kvikmyndaverkefnið sem LuckyChap tilkynnir um á stuttum tíma, en á dögunum var sagt frá því að fyrirtækið ætlaði að gera kvikmyndina Tank Girl, með Dreamland leikstjórann Miles Joris-Peyrrafitte bakvið tökuvélina. Tank Girl er vinsæl teiknimyndasaga, og Robbie íhugar að leika aðalhlutverkið sjálf.
Næst sjáum við Robbie á ný í hlutverki andhetjunnar Harley Quinn í kvikmyndinni Birds of Prey (And the Fantabulous Emancipation of One Harley Quinn), sem frumsýnd verður í febrúar 2020.
Hér fyrir neðan er stuttmyndin sjálf: