Rjómi fékk ekki að koma til Íslands

Heimildarmyndin Rjómi fékk hvatningarverðlaun dómnefndar á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg sem nú er nýafstaðin.  Myndin fjallar um Hilmar Egil Jónsson, sem ætlaði að flytja frá Noregi heim til Íslands haustið 2012 með hundinn sinn Rjóma. Þegar hann fékk synjun frá Matvælastofnun um að hundurinn mætti koma til landsins, hófst lygileg atburðarrás og 5 ára þrotlaus barátta Hilmars við kerfið.

Í umsögn dómnefndar segir: „Klassísk saga af óréttlæti sem kemur þó sífellt á óvart og heldur manni föngnum frá upphafi til enda.“

Dómnefndina skipuðu Ragnar Bragason, Yrsa Roca Fannberg og Elísabet Indra Ragnarsdóttir.

Leikstjóri og framleiðandi myndarinnar er Freyja Kristinsdóttir, en myndin tók rúm 2 ár í framleiðslu.

Á vefsíðu Rjóma segir að Freyja hafi fyrst heyrt af Hilmari og Rjóma á Facebook. „Þar sem ég er bæði dýralæknir og hundaþjálfari, þá vakti þetta athygli mína,“ segir Freyja en hún lauk námi í heimildarmyndagerð frá kvikmyndaskóla í Danmörku árið 2015.

Rjómi verður sýnd í Bíó paradís  sjötta og tíunda júní nk. kl. 20.

Hægt er að horfa á stiklu úr myndinni með því að ýta hér.