Þeir félagar Hugleikur Dagsson, Sigurjón Kjartansson og Sjón halda áfram vikulegum sýningum sínum á költ- og klassík myndum undir nafninu Svartir sunnudagar í Bíó Paradís við Hverfisgötu í Reykjavík. Að þessu sinni er það sjálfur Clint Eastwood sem mætir til leiks í einum magnaðasta vestra sem gerður hefur verið, eins og honum er lýst í tilkynningu frá Bíó Paradís.
Sjáðu stikluna úr High Plains Drifter hér að neðan:
„High Plains Drifter er fyrsti vestrinn sem Clint Eastwood leikstýrði og talinn með bestu vestrum allra tíma. Um leið og hann spinnur við ‘the man with no name’ persónuna sem hann lék í dollaramyndum Sergios Leones, fer hann með vestraformið í óvæntar áttir svo útkoman verður kvikmynd er allt í senn myrk, súrrealísk og fyndin.“
Söguþráður myndarinnar er þessi: Förumaður kemur ríðandi út úr hitamistri sléttunnar og tekur stefnuna á þorpskrílið Lago. Þangað kominn tekur hann til við að rétta af siðferðiskúrsinn hjá íbúunum en stutt er síðan þeir stóðu hjá þegar lögreglustjórinn þeirra var myrtur fyrir allra augum. Aðfarir förumannsins nafnlausa eru með miklum ólíkindum, ofbeldisfullar og ögrandi, og hans einu samherjar eru lauslætisdrós og þorpsdvergurinn. Þegar sveit óþokka stefnir á bæinn til að fremja þar sín voðaverk leita bæjarbúar ásjár hjá komumanninum og hann bæði bjargar þeim og tuktar til í senn. Hvort hann er mennskur maður, vofa eða refsivöndur Guðs er ekki ljóst, en eitt er víst og það er að hann er bæði ráðagóður og snjall með skotvopnið.
Svartir sunnudagar láta sérhanna plaköt fyrir allar sýningar klúbbsins. Plakat fyrir High Plains Drifter hannaði myndlistarmaðurinn Sara Riel, og má sjá það hér að neðan:
Myndin verður sýnd sunnudaginn 13. janúar kl. 20. Aðeins er um þessa einu sýningu að ræða á myndinni.