Eldfjall, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, verður sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í september næstkomandi. Eldfjall er fyrsta íslenska myndin sem valin er til keppni á RIFF. Hún keppir við ellefu aðrar kvikmyndir í flokknum Vitranir (e. New Visions).
Í tilkynningu frá RIFF segir að með sýningu myndarinnar verði brotið blað í sögu RIFF því aldrei áður hafi íslensk mynd verið valin í aðalkeppnisflokk hátíðarinnar, Vitranir, en í þann flokk koma aðeins til greina myndir sem eru fyrsta eða annað verk höfundar.
Eldfjall (Volcano) er fyrsta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar leikstjóra í fullri lengd. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor og keppti þá í flokknum Directors Fortnight og jafnframt um hin virtu Camera d´Or verðlaun. Myndin hefur þegar gert víðreist og keppir m.a. um verðlaun á kvikmyndahátíðunum í Toronto og Chicago í haust.
Eldfjall fjallar um Hannes, 67 ára gamlan mann sem er að komast á eftirlaunaaldur. Hann er karlmaður af gamla skólanum, einangraður frá fjölskyldunni og heimilinu, sem þarf að takast á við nýtt hlutverk í lífinu þegar eiginkona hans veikist. Þetta er þroskasaga manns sem þarf að takast á við afleiðingar fortíðarinnar og erfiðleika nútímans til að eiga möguleika á framtíð. Með aðalhlutverk fara Theodór Júlíuson og Margrét Helga Jóhannsdóttir
Eldfjall ver tekin upp á Íslandi haustið 2010.
Eins og við höfum sagt hér frá á kvikmyndir.is þá var myndin valin til að keppa um „Discovery“ verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Toronto í næsta mánuði. Kvikmyndahátíðin í Toronto er sú stærsta og virtasta í Norður-Ameríku og fer fram dagana 8.-18. september. Auk þess keppir Eldfjall á kvikmyndahátíðinni í Chicago sem fram fer í október.