Núna er tíunda RIFF hátíðin búin og við tekur tæplega tólf mánaða bið eftir næstu hátíð. Ég náði að fara á 27 sýningar af 88 (ef sérviðburðir eru ekki taldir með). Án þess að hafa kannað það nákvæmlega er ég viss um að það sé persónulegt met og vonast ég til að geta gert ennþá betur á næsta ári.
Ég var líka búinn að kynna mér myndirnar aðeins betur en venjulega þannig að ég sá ekki jafn mikið af lélegum myndum og stundum. En hér kemur seinni parturinn af blogginu mínu. En fyrir nokkrum dögum skrifaði ég um fyrri hálfleik hátíðarinnar.
# Expedition to the End of the World
Þriðjudagurinn byrjaði í Tjarnarbíó á nokkuð skemmtilegri heimildarmynd um leiðangur upp austurströnd Grænlands. Við fylgdumst með listamönnum og vísindamönnum kanna svæði sem höfðu ekki verið könnuð áður. Sýn þeirra á hlýnun jarðar kom manni svolíltið á óvart. Yfirleitt er fólki skipt í tvennt; þá sem trúa ekki á hlýnun jarðar og halda að allt verði í lagi og svo þá sem trúa á hlýnun jarðar og halda að allt fari á versta veg. Þeir trúa á hlýnun jarðar en segja að það muni verða allt í lagi, við þurfum bara að breyta lífsstílnum okkar. Og þeir færðu líka mjög góð rök fyrir því. Myndin var mjög róleg og myndræn með þremur eða fjórum þungarokkslögum inn á milli til að halda athygli áhorfandans.
Ég var ekki alveg búinn að ákveða hvaða mynd ég ætlaði að sjá um kvöldið. Vinkona mín ætlaði á The Wind Rises, en það var uppselt svo ég keypti mér miða á Only Lovers Left Alive. Vinur vinkonu minnar hætti hinsvegar við að fara á The Wind Rises svo ég fékk miðann hans. Vá hvað ég sé ekki eftir því, ég hef aldrei dottið inn í myndir Hayao Miyazaki, en nú skil ég að ég þær eru gerðar fyrir stóra tjaldið. Hún er svo sjónræn, draumaatriðin eru alveg ótrúlega flott. Það þarf ekkert að vera með neinar málalengingar um það, nú ætla ég að fara að horfa á fyrri myndir hans.
Miðvikudagurinn byrjaði á ítölsku myndinni Spaghetti Story. Hún er um mann um þrítugt sem er að reyna að koma sér á framfæri sem leikari. Hann lendir í rifrildum við kærustuna sína því henni finnst hann ekki vera að afla neinna tekna. Hann flækist inn í eiturlyfjabransann sem virðist ógnvekjandi einfalt. Það sem mér fannst einkenna þessa mynd var að öll samtöl milli einstaklinga virtust byrja á vingjarnlegum nótum en snerust mjög fljótt upp í rifrildi. Eftir myndina útskýrði leikstjórinn að hún hafi verið gerð fyrir næstum engum pening. Vá hvað það sást ekki. Allir leikararnir stóðu sig vel kvikmyndagerðin mjög fagmannleg. Áhugaverð saga sem skildi samt ekki mikið eftir sig.
Hér var mynd sem ég var búinn að ákveða að sjá, Gullbúrið, um þrjá unglinga frá Guatemala sem ætla að ferðast yfir Mexíkó til að komast til fyrirheitna landsins, Bandaríkjanna. Þetta er ein af þessum “must see” myndum. Manni finnst hún vera svo hreinskilin og gefa raunverulega mynd af því hvernig það er fyrir munaðarlausa unglinga að flýja landið sitt á eigin spýtur. Það er alls ekki dans á rósum og atburðarás sem maður myndi ekki sjá í Hollywoodmynd.
Dagurinn byrjaði á myndinni Tightrope, um leikhússtjórann Peter Brook. Hann hefur þróað nokkuð óvenjulega aðferð til að þjálfa upp leikarana sína. Hann hefur hinsvegar aldrei leyft neinum að vera viðstaddur þjálfunina og því hafa vaknað upp ákveðnar sögusagnir um hvað gerist á þeim. Hér kvikmyndar sonur hans í fyrsta sinn það sem gerist í þjálfuninni. Nokkuð áhugavert að fylgjast með því hvernig leikhópurinn þéttist og nær ákveðinni nýrri tengingu við hvert annað. En myndin er heldur of löng, og aðallega áhugaverð fyrir fólk í leikhúsgeiranum. Það mætti gera 20 mínútna útgáfu fyrir meðalmann eins og mig.
# Gullna eggið B
Í gullna egginu eru tíu stuttmyndir, skiptar í sýningu A og B. Ég náði því miður ekki að sjá sýningu A. En í B sýningunni var fyrst Before Passing, svarthvít dramamynd sem ég skildi alls ekki. Lítið annað um hana að segja.
Svo kom Last Christmas, um ungan strák sem er í heimsókn hjá ömmu sinni sem er með alsheimer. Fyrst hélt ég að þetta væri mjög dæmigerð mynd um alsheimer, en hún kom skemmtilega að óvart.
Næst kom myndin A Land That Forgets, aftur mynd sem ég skildi ekki upp né niður í, mjög sjónræn og lítill eða enginn söguþráður. Ég hef ekki hugmynd um hvað leikstjórinn var að reyna að segja.
Þar á eftir kom Nantucket Sun, áhugaverð mynd um tvö pör sem fá sér í glas á heimili annars parsins. Fljótlega kemur í ljós að hvorugt parið er í neitt sérstaklega hamingjusömu sambandi og spennan leysist úr læðingi það kvöld.
Síðasta myndin, og líka myndin sem vann gulleggið, heitir Good Night, tvær fjórtán ára stelpur fara niður í bæ að skemmta sér. Kvöldið tekur hinsvegar óvænta stefnu. Klárlega besta stuttmynd hátíðarinnar. Sérstaklega skemmtilegur endir þar sem báðar stelpurnar vita nokkuð um hina stelpuna sem þær ætla að halda sem leyndarmáli.
Á eftir stuttmyndunum var haldið aftur í Háskólabíó til að sjá myndina Still Life, sem fékk þá furðulegu þýðingu Kyrralífsmynd. Einhverra hluta vegna tengi ég það við Kyrrahafið, en myndin hefur ekkert með það að gera. Hún er um einstæðing sem vinnur við að fara inn á heimili látinna einstaklinga sem virðast við fyrstu sýn ekki eiga neina ættingja eða aðstandendur. Hans starf er að fara í gegnum munina og reyna að finna vísbendingar um einhverja aðstandendur, bæði til að finna erfingja eignanna og til að vera viðstödd jarðaförina. Það sem gerir myndina frábæra eru þrjár sterkar undirstöður; sögusviðið, hvernig aðalpersónan þróast í myndinni og leikarinn sem leikur aðalpersónuna, Eddie Marsan. Allt í einu dettur mér í hug að kannski sé hægt að líkja henni við Being There með Peter Sellers. Allavega alveg jafn eigulegar.
Fór út úr sal þrjú bara til að fara strax aftur inn í hann. Þetta var eina ellefusýningin, svo ég skellti mér á hana. Strákur í Casablanca á í kynferðislegu sambandi við nokkra karlmenn í bænum. Fjölskylda hans virðist vera ein taugahrúga. Hann flýr til Sviss með ástmanni sínum en slítur sambandi við hann þegar hann er kominn inn í skóla þar. Þetta var eina myndin á hátíðinni þar sem hvarflaði að mér að labba út. Hún var svo rosalega róleg og endaði með að hafa lítið sem ekkert að segja.
# Íslenskar stuttmyndir, fyrsti skammtur
Svo skemmtilega vildi til að ég tók íslensku stuttmyndirnar alveg í öfugri röð, byrjaði á þriðja skammti og svo endaði ég á fyrsta skammti. En auðvitað skiptir röðin engu máli þannig séð. Þessi skammtur byrjaði á Harður heimur, um mann sem kemur inn í ókunnan bæ og vingast við strák sem verður fyrir einelti af bekkjarbræðrum sínum. Það var greinilega verið að setja villta vestrið inn í íslenskan raunveruleika og fannst mér útkoman nokkuð skemmtileg.
Svo kom The Banishing. Hrollvekja um unga stelpu sem er andsetin. Ég varð allavega mjög hræddur þannig að ætli markmiðinu hafi ekki verið náð.
Næst var Hvalfjörður, sem vann líka verðlaun á hátíðinni. Mynd sem hefur verið að fá mörg verðlaun og fékk ég núna staðfestingu á að hún á það alveg skilið.
Á eftir henni kom Jón Jónsson, gamall einsamall maður talar við mynd af konunni sinni og fer að sjá drauga í húsinu. Sjálfur var ég ekki alveg að skilja söguþráðinn, en hún fær samt ekki falleinkun.
Pinned er hljóðlaus mynd um skrifstofudömu sem hefur einhverja furðulega þörf til að stinga sig með títuprjónum. Aðalgalli myndarinnar var að ég þekkti ekki hana og samstarfskonu hennar í sundur.
Næstsíðasta myndin var Nocturne um mann sem var lagður í einelti í skóla og núna, tíu árum seinna, ætlar að hefna sín. Mér fannst hvorugur eiginlega nægilega sannfærandi í karakterinum sínum.
Í lokin var myndin Tölur og vinir. Röð af ljósmyndum með “voice over” um íþróttaaðdáanda. Þegar hingað var komið við sögu var ég eiginlega hættur að nenna að fylgjast með. Hvað þá svona mynd sem erfitt er að vita um hvað er. Þessi fær falleinkun hjá mér. Ekki tímans virði, þótt stutt sé.
Þessi mynd byrjaði ansi skemmtilega, því það var ekkert hljóð til að byrja með. Sem er ansi kaldhæðnislegt vegna nafnsins. En starfsfólkið var fljótt að bregðast við og setti myndina aftur af stað með hljóði. Sem betur fer þurftum við ekki að horfa á auglýsingarnar aftur. Þessi heimildamynd er um harmonikkuleikarann Kimmo Pohjonen frá Finnlandi. Alla myndina gat ég ekki hugsað um annað en “vá, hvað hann er mikill töffari”, listamaður sem tekur klassískt hjóðfæri og gerir það töff, tekur það á nýjar brautir og fer með listina í nýjar hæðir. Brýtur múra íhaldsseminnar. Svo er hann líka ljúfur sem lamb á að líta. Stundum fannst mér tónlistin hans bara vera hávaði, en hann sagði sjálfur að hann er ekki að gera tónlist sem allir munu fíla, hann er að gera það sem honum líður vel með að gera. Get alveg mælt með þessari mynd.
Ég var ekki alveg viss hvort ég ætlaði að fara á þessa, því ég hafði á tilfinningunni að ég vissi allt sem mundi koma þar fram. Að hluta til var það alveg rétt, en ég sé samt ekki eftir því að hafa séð hana. Hún er um kúabónda í Englandi sem selur mjólkina sína algjörlega óbreytta og náttúrulega beint til viðskiptavinarins. Maður fær að fylgjast með lífi kúnna. Það er miklu meiri vinna að hugsa vel um þær, en maður skilur núna betur hversu mikilvægt það er. Það hefði verið áhugavert að fylgjast líka með stærra kúabúi sem fer ekki jafn vel með kýrnar, en líklega hefði verið erfitt að fá leyfi kúabónda slíks bús. Þetta fær mann til að langa til að gera heimildamynd um sveitabæi á Íslandi og hvort verið sé að fara vel með dýrin.
Ég varð einfaldlega að sjá þessa. Hvernig ætli sé best að útskýra söguþráðinn? Maður ætlar að gera heimildamynd um bróður sinn, sem er í hljómsveitinni The Nationals, en myndin endar með að vera meira um hann að gera heimildamynd um bróður sinn. Hún hafði alveg ágætt skemmtanagildi, en það voru samt nokkur atriði sem fóru í taugarnar á mér. Maðurinn virtist ekki hafa neina hugmynd um hvernig maður á að gera heimildamynd, en samt er myndin mjög góð, og það kemur aldrei fram hvaða hjálp hann fékk til að klára myndina. Sum atriðin voru tekin upp af þriðja aðila, en aldrei kom fram hver var að taka það upp. Þessi tvö atriði, og fleiri, vekja upp grun um að atburðarásin hafi öll verið sviðsett. Og ef það er raunin þá fær þessi mynd algjöra falleinkun hjá mér, fyrir að vera miskunarlaust óheiðarleg. En ef ég hef rangt fyrir mér þá er þetta rosalega skemmtileg og áhugaverð mynd.
Daginn áður var myndin sýnd með “live” tónlist frá hljómsveitinni Hjaltalín. Það hefði verið gaman að sjá það, en þess í stað fór ég á þessa sýningu með Q&A leikstjórans, framleiðanda og aðalleikkonu. Eins og flestir vita er myndin algjörlega án tals, það eru ekki einu sinni textar inn á milli eins og gert var á tímum þögu myndanna, því myndin gerist í fjarlægri framtíð þar sem fólk talar ekki. Söguþráðurinn er nokkuð einfaldur, en þar sem enginn segir neitt þá er það undir áhorfandanum komið að fylla upp í eyðurnar. Ég sjálfur mistúlkaði allavega eitt atriði sem leiðréttist ekki fyrr en á Q&A’inu (þetta með afhverju hann er að missa tennurnar). Sjónrænt er myndin mjög flott og mjög stíliseruð. Tónlistin frá Hjaltalín fannst mér ekkert meistaraverk, en passaði vel við myndina. Mér fannst samt synd að lokalagið var með enskum texta, sem var ansi mikið úr takt við tallausa mynd. Ef þú hefur þolinmæði til að horfa á 80 mínútna langt “tónlistamyndband” þá get ég alveg mælt með þessari.
Núna er kominn næstsíðasti dagurinn, ég veit ekki alveg hvað það var við þessa mynd, en ég var líka orðinn soldið þreyttur á þessu maraþoni og ég var ekki alveg að ná að halda athyglinni. Myndin gerist í Suðaustur-Asíu. Fjölskylda í sveitinni er að berjast við að láta enda ná saman. Það er mikil ádeila hjá mörgum hvort þau ættu að vera heima og vinna á hrísgrjónaakrinum eða flytja tímabundið í borgina, vinna í verksmiðju og þannig þéna smá aukapening. Mér finnst ég hafa séð margar miklu betri myndir um þetta sama viðfangsefni. Þeir sem þekkja ekki þennan heim hafa ábyggilega gott af því að sjá hann, en mér hreinlega leiddist á þessari mynd.
Og nú að allt öðru, frönsku víni. Vínmenningin í Frakklandi er heimsfræg, en unga fólkið í Frakklandi er farið að hafa minni og minni áhuga á sínu eigin víni. Á sama tíma eru Kínverjar að verða brjálaðir í vín, þar á meðal franskt vín. Í þessari mynd er talað á mjög skemmtilegan hátt um þessa breytingu og þau áhrif sem það gæti haft í för með sér. En kannski er myndin að reyna að vera of skemmtileg. Mér fannst hún of mikið vera að reyna að vera áhugaverð og skemmtileg frekar en að komast að sannleikanum. Fyrsta viðvörunarbjallan hringdi hjá mér þegar ég sá að Russell Crowe var þulur myndarinnar. Það voru nokkur atriði sem ég sá að var gert mikið úr til að sjokkera, eins og að kínverskt vín hafi unnið verðlaun. Held að flestir hafi haldið að það hafi unnið stærstu verðlaunin, en ef maður fylgdist vel með þá áttaði maður sig á því að það var ekki raunin. Annar galli var að mér finnst vín og vínmenning bara ekki það áhugavert viðfangsefni. En mér fannst hinsvegar áhugavert hvað sumir milljónamæringar verða alveg sjúkir í að kaupa eitthvað sem þeim langar í, jafnvel vín sem þeir munu líklega aldrei drekka.
Hér er saga, eða sögur, sem ekki eru sagðar nægilega oft. Sögur fólks sem býr við stríðsástand. Dani af afgönskum uppruna ferðast til heimalands síns með nokkrar upptökuvélar. Þeim dreifir hann til valinna einstaklinga sem hafa fallist á að taka upp líf sitt. Mér fallast einfaldlega hendur við að reyna að segja frá því ástandi sem þau þurfa að lifa við. Í nokkrum atriðum heyra þau skothvelli fyrir utan heimili sitt og bíða í óvissu eftir því að þeim ljúki, vitandi að átökin gætu þessvegna færst inn í húsið þeirra. Mér finnst leiðinlegt að gagnrýna þessa merkilegu og mikilvægu mynd, en hún endaði mjög snögglega, án þess að útskýra hvort það sé allt í lagi með fólkið sem fékk myndavélarnar.
Kínversk mynd byggð á sannsögulegum atburðum. Fjórar smásögur um fjóra mismunandi einstaklinga. Ég tók þessu sem ákveðinni ádeilu á mannlegt eðli og samfélagið í heild. Myndin er mjög róleg og leyfir sögunni að vera sagðri sjónrænt, en á sama tíma koma mjög átakaleg atriði inn á milli sem eru samt sýnd mjög hrátt og án hraðrar klippingar eða hárrar tónlistar. Myndin er í lengri kantinum, en um leið og ég áttaði mig á að við ættum ekkert eftir að sjá persónuna úr fyrstu sögunni aftur og hætti að reyna að leita að tengingum milli þessara fjögurra söguþráða þá naut ég myndarinnar mun betur. Alveg þess virði að sjá hana, en samt ekki fyrir alla.
Síðasta myndin sem ég sá á RIFF hátíðinni 2013 var gríska myndin Miss Violence. Þetta var eina myndin sem ég sá af flokknum Grikkland í brennidepli. Hún var ekki á lista yfir þær myndir sem ég ætlaði að sjá, en ég var búinn að heyra svo marga góða hluti um hana að ég sló til. Þó þetta sé ekki besta myndin á hátíðinni þá er þetta samt sú sem skildi hvað mest eftir sig. Ég bara get ekki hætt að hugsa um hana. Ung stelpa fremur sjálfsmorð í miðju 11 ára afmælinu sínu og enginn virtist vita afhverju. Í stað þess að vera venjuleg mynd og svara því afhverju hún gerði það með því að skoða atburðina sem gerðust fyrir afmælið þá svarar myndin spurningunni með því að sýna okkur atburðina eftir afmælið. Þótt myndin sé svolítið lengi að koma sér að efninu er það alveg þess virði, því seinni hluti myndarinnar er ansi hrottalegur. En samt á mjög yfirvegaðan og rólegan hátt. Þetta er miklu meiri sálfræðitryllir heldur en spennutryllir. Ekki góð mynd rétt fyrir svefninn.
Og þar með lýkur RIFF bloggi mínu. Ég verð nú að viðurkenna að það er ekki auðvelt að horfa á fjórar myndir í röð án þess að missa athyglina af og til. En ég er mjög sáttur. Mig minnir að ég sé búinn að fara á minnst 6 RIFF hátíðir og mér fannst þessi einkennast af mjög rólegum og sjónrænum myndum, sem leyfðu myndunum að segja söguna. Þar er ýktasta dæmið auðvitað Days of Gray, en líka The Moo Man, Still Life, Expedition to the End of the World, Celestial Wives of the Meadow Mari og fleiri. Óvenjufáar heimildamyndir voru með þul og leyfðu, eins og ég sagði, myndunum að segja söguna.
Á svona kvikmyndahátíðum býst maður alltaf við eitthverju klúðri, eins og bílabíóið um árið þar sem hljóðið var aldrei í sínki. En fyrir utan stutt hljóðleysi á Soundbreaker þá gerðist ekkert svakalegt. Ég frétti reyndar að það hafi gengið erfiðlega að setja texta á The Wind Rises, en það kom sér bara nokkuð vel fyrir mig þar sem ég kom mjög seint inn í salinn. Aldrei tók ég eftir að það hafi verið ofselt inn á sýningar, þvert á móti var oftar ein einu sinni búið að koma fyrir aukastólum í gangveginum sem voru svo ekki nýttir. Ég sé mest eftir að hafa ekki farið á neinn sérviðburð, og vonast til að fara allavega í hellabíó á hátíðinni á næsta ári. En hvenær verður hún? Jú, ég komst að því – hún verður haldin 25. september – 5. október 2014. Teljum niður.
Eysteinn Guðni Guðnason