Regnboginn breytist í Bíó Paradís – heimili kvikmyndanna

Regnboginn við Hverfisgötu gengur í endurnýjun lífdaganna þann 15. september næstkomandi og fær heitið Bíó Paradís – heimili kvikmyndanna.
Í fréttatilkynningu frá bíóinu segir að Bíó Paradís muni hafa á dagskrá sinni nýjar áhugaverðar kvikmyndir víðsvegar að, auk hverskyns eldri mynda erlendra sem innlendra, hýsa kvikmyndahátíðir og standa fyrir hverskyns kvikmyndatengdum viðburðum. „Þá er stefnt að því að koma á reglulegum skólasýningum í húsinu þar sem markmiðið er að efla þekkingu og menntun á þessari mikilvægu listgrein. Þar verður einnig að finna veitingahús og verslun með mynddiska og annan kvikmyndatengdan varning.
Bíó Paradís verður því nokkurskonar hjarta kvikmyndamenningar í landinu; samfélag kvikmyndaunnenda og áfangastaður allra þeirra sem vilja eiga góðar stundir í afslöppuðu umhverfi sem angar af andrúmslofti kvikmyndanna.
Hús af þessu tagi eru meðal lykilstofnana höfuðborga víðsvegar um heim, vinsælir áfangastaðir fyrir heimamenn jafnt sem ferðamenn. Þau má til dæmis finna á öllum Norðurlöndunum, í flestum Evrópulöndum og í helstu borgum Bandaríkjanna og Kanada,“ segir í tilkynningunni.

Samstarfsvettvangur um fjölbreyttar kvikmyndasýningar

Bíó Paradís verður samstarfsvettvangur flestra þeirra sem koma að kvikmyndamálum í landinu. Má þar nefna dreifingaraðila kvikmynda; Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík (auk ýmissa smærri hátíða); Kvikmyndamiðstöð Íslands (sem nýverið flutti á aðra hæð Regnbogahússins); Kvikmyndasafn Íslands; Kvikmyndaskóla Íslands; kvikmyndafræðideild Háskóla Íslands, sérstakt átaksverkefni Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar og menntasviðs Reykjavíkurborgar um kvikmyndalæsi fyrir börn og unglinga og fagfélög íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Auk þess er gert ráð fyrir samstarfi við ýmiskonar aðra aðila um sýningarhald og aðra kvikmyndatengda viðburði í húsinu.

Stofnaðilar sjálfseignarstofnunarinnar Heimilis kvikmyndanna ses, sem mun reka Bíó Paradís, eru fagfélög kvikmyndagerðarmanna (Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra), Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík og Félag kvikmyndaunnenda. Stjórn stofnunarinnar skipa Ari Kristinsson (formaður), Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Ragnar Bragason.

Lovísa Óladóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Heimilis kvikmyndanna. Ásgrímur Sverrisson verður dagskrárstjóri, auk þess að sjá um kynningarmál.

Dagskrá í upphafi

Opnunarmynd Bíó Paradísar verður tónleikamyndin Backyard eftir Árna Sveinsson og Sindra Kjartansson, sem bar sigur úr býtum á heimildamyndahátíðinni Skjaldborg í vor. Þá mun Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík taka húsið yfir í ellefu daga frá 23. september til og með 3. október. Nánar verður tilkynnt um dagskrána í septemberbyrjun.