Refn uppfærir Maniac Cop

Kvikmyndaleikstjórinn Nicolas Winding Refn mun framleiða uppfærða útgáfu af „Maniac Cop“ og John Hyams („Universal Soldier: Day of Reckoning) leikstýrir.

Danski sérvitringurinn Refn er þekktur fyrir frekar óhefðbundnar myndir á borð við „Drive“ (2011), „Only God Forgives“ (2013) og „The Neon Demon“ (2016) en hann er yfirlýstur aðdáandi „Maniac Cop“ myndanna tveggja sem William Lustig leikstýrði árin 1988 og 1990. Fyrir Blu-ray útgáfu „Maniac Cop 2“ veitti hann yfirlestur fyrir myndina ásamt Lustig og greindi þá frá því að hann hefði áhuga á að koma nýrri útgáfu á hvíta tjaldið.

Eins og fram kemur í frétt á Variety mun væntanlega „Maniac Cop“ vera raunsæisleg hasarmynd og styðjast minna við hrylling en frummyndin. Myndin gerist í nútímanum og greinir frá lögreglumanni í Los Angeles sem hyggst afhjúpa sannleikann á bak við hrottaleg morð eins samstarfsmanns síns á saklausum borgurum. Það verður spennandi að sjá hvernig tekst til með þessa.

Bruce Campbell í hlutverki sínu

„Maniac Cop“ er þekkt költ mynd sem ól af sér tvö framhöld og er í hávegum höfð meðal hasarmyndaunnenda. Í henni var samansafn af þekktum B-myndakóngum á borð við Tom Atkins („Night of the Creeps“), William Smith („Rich Man Poor Man“), Richard Roundtree („Shaft“), Bruce Campbell („Evil Dead“ þríleikurinn) og Robert Z‘Dar („Tango and Cash“) sem lék titilhlutverkið.  Framhaldið þótti, ef eitthvað er, betur heppnað en hún hefur að geyma einhver ótrúlegustu áhættuatriði sem fest hafa verið á filmu. Í henni léku Robert Davi („Licence To Kill“), Claudia Christian („Babylon 5“) og Z‘Dar.

Lustig hóf að að leikstýra þriðju myndinni, „Maniac Cop 3: Badge of Silence“ (1993), en hætti í miðjum tökum eftir óleysanlegan ágreining við framleiðendur um stefnu myndarinnar. Myndin var fullkláruð af hinum alræmda Alan Smithee en hann hefur að geyma hreint magnaðan feril sem leikstjóri eins og sjá má þegar honum er flett upp á IMDB. Alan Smithee er, eins og margir kvikmyndaunnendur vita, dulnefni sem gripið er í þegar leikstjórar mynda vilja ekki koma fram undir eigin nafni.