Redford ræður Shia LaBeouf í pólitískan spennutrylli

Bandaríski leikarinn og leikstjórinn Robert Redford hefur ráðið Transformers hetjuna Shia LaBeouf í hlutverk í pólitíska spennutryllinum The Company You Keep, sem byggð er á skáldsögu eftir bandaríska höfundinn Neil Gordon, að því er Variety kvikmyndatímaritið greinir frá.

LaBeouf mun leika blaðamann sem kemur upp um mann sem Redford leikur, Jim Grant, sem er fyrrum liðsmaður the Weather Underground, sem var róttatækur vinstrisinnaður aðgerðahópur sem ráðgerði á sjöunda áratug síðustu aldar að steypa bandarísku ríkisstjórninni af stóli.

Grant er eftirlýstur af bandarísku alríkislögreglunni FBI, fyrir hlutverk sitt í bankaráni.
þetta verður fyrsta hlutverk Roberts Redford á hvíta tjaldinu síðan árið 2007, en þá lék hann í Lions for Lambs, sem einnig var pólitískur spennutryllir.

Lem Dobbs hefur skrifað handrit upp úr bók Gordons, en hann hefur áður skrifað m.a. The Limey, árið 1999.
Sagan í The Company You Keep er sögð í gegnum tölvupósta persónu Redfords til dóttur hans, en þar er meðal annars fortíð hans útskýrð og ofbeldið sem hann beitti.

„Fimm til sex raddir segja söguna í bókinni, en eingöngu í gegnum tölvupósta, þannig að það var flókið að koma þessu yfir á kvikmyndaform, en það tókst frábærlega,“ segir Gordon í samtali við breska blaðið the Guardian.