Raimi og Page í helvíti

Það eru eflaust mjög skiptar skoðanir fólks varðandi Sam Raimi.
Maðurinn fékk nú ekki beint margfalt hrós fyrir Spider-Man 3, en sú mynd var að margra mati einhver mestu vonbrigði síðasta sumars.

Raimi er að sjálfsögðu best þekktur nú til dags fyrir Spider-Man þríleikinn, en B-mynda unnendur yrðu eflaust sammála um annað.

Skarpir unnendur kvikmynda muna eflaust eftir Evil Dead seríunni sígildu, en næsta mynd Raimi er einmitt hryllingsmynd í anda fyrstu myndarinnar.

Myndin ber heitið Drag Me to Hell og hefur Universal ákveðið að fjármagna kvikindið. Raimi hafði skrifað handritið ásamt bróður sínum, Ivan Raimi, en saman skrifuðu þeir t.d. Army of Darkness.

Raimi hefur fengið hina marglofuðu Ellen Page í aðalhlutverkið. Page er þessa dagana að gera sig klára fyrir Óskarsverðlaunin. Hún er tilnefnd fyrir Juno sem besta leikkona í aðalhlutverki. Einnig hvetur undirritaður til þess að fólk tékki á Page í myndinni Hard Candy.

Drag Me to Hell fer í tökur í Los Angeles í næsta mánuði. Lítið er vitað um örlög Spider-Man seríunnar sem stendur, en það er örugglega ekki langt í að eitthvað komi í ljós þar.