Avatar stjarnan Sam Worthington, Cloud Atlas leikarinn Jim Sturgess og True Blood leikarinn Ryan Kwanten munu leika á móti Óskarsverðlaunahafanum Anthony Hopkins í nýjum spennutrylli, Kidnapping Fredddy Heineken.
Leikstjóri myndarinnar verður Daniel Alfedson, sem leikstýrði annarri og þriðju myndinni í Millenium þríleiknum sænska, sem hófst með Karlar sem hata konur.
Handrit gerir William Brookfield eftir metsölubók hollenska glæpasagnahöfundarins Peter R. de Vries. Sagan segir frá einu alræmdasta mannránsmáli 20. aldarinnar, sem endaði með hæsta lausnargjaldi sem nokkru sinni hafði verið greitt fyrir einstakling fram að þeim tíma.
Bjór-auðjöfrinum Freddy Heineken, sem Hopkins leikur, og bílstjóra hans, Ab Doderer, var rænt árið 1983 og sleppt gegn lausnargjaldi upp á 35 milljónir hollenskra gyllina, sem er jafnvirði 50 milljóna Bandaríkjadala í dag, eða rúmra 6 milljarða íslenskra króna.
Worthington, Sturgess og Kwanten munu að öllum líkindum leika mannræningjana, en aðrir leikarar verða m.a. hollenski leikarinn Mark van Eeuwen og Ástralinn Tom Cocquerel.
Tökur hefjast í lok þessa mánaðar í Belgíu, og síðar í Amsterdam og New Orleans.