Radcliffe týndur í óbyggðum – Fyrsta stikla úr Jungle

Síðast þegar leikarinn Daniel Radcliffe strandaði í óbyggðum, var þegar hann lék lík í kvikmyndinni Swiss Army Man. Núna er Radcliffe týndur á nýjan leik í myndinni Jungle, en sprellifandi þó, að minnsta kosti miðað við það sem fyrsta stiklan úr myndinni gefur til kynna.

Leikstjóri er The Belko Experiment leikstjórinn Greg McLean.


Kvikmyndin er byggð á sannsögulegum atburðum og gerist á níunda áratug síðustu aldar. Radcliffe leikur ísraelska ferðamanninn Yossi Ghinsberg, sem verður viðskila við vini sína eftir að hann lendir í slysi á fleka, djúpt í frumskógum Bólivíu, og þarf af eigin rammleik að rata aftur til byggða.

Aðrir helstu leikarar eru Alex Russell, Joel Jackson og Thomas Kretschmann.

„Þetta er ótrúleg saga,“ segir McLean, „ótrúlega tilfinningarík og andleg vegna þess sem hann gengur í gegnum, hverju hann glatar og hvað hann uppgötvar. Leikur Daniel er einstakur.“

Jungle verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Melbourne, MIFF, þann 11. ágúst nk.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: