Q verður Freddie Mercury

ben whishawBen Whishaw, sem lék Q í Skyfall, síðustu James Bond bíómynd, þarf að fara að safna myndarlegu yfirvararskeggi því hann hefur tekið að sér hlutverk Freddie Mercury, söngvara bresku rokkhljómsveitarinnar Queen, í nýrri mynd sem gera á um Mercury. Mercury var þekktur fyrir gróskumikið yfirvararskegg.

 

Myndin er nú loksins komin aftur í gang en hún hefur verið í limbói sl. tvö ár á meðan leitin að aðalleikara hefur farið fram m.a. Gamanleikarinn Sacha Baron Cohen átti upphaflega að leika söngvarann, en sagði sig svo frá verkefninu. Svo virðist sem eftirlifandi meðlimir Queen hafi ekki verið 100% vissir um að Baron væri rétti maðurinn í hlutverkið.

Trommuleikari Queen Roger Taylor sagði Mojo tónlistartímaritinu til dæmis: „Okkur fannst eins og Sacha væri líklega ekki sá rétti í hlutverkið þegar allt kom til alls … við vildum ekki að myndin yrði eitthvað grín. Við vildum hreyfa við fólki.“

Whishaw ætti að geta skilað hlutverkinu vel frá sér en hann er þekktur fyrir sviðsleik og fyrir leik í bíómyndum eins og Skyfall, Cloud Atlas og Bright Star.

Dexter Fletcher leikstýrir.

Freddie Mercury dó úr eyðni árið 1991.

Whishaw er þessa stundina að vinna við myndina Heart of the Sea, drama um hval, skipsskaða og mannát. Leikstjóri þeirrar myndar er Ron Howard.